Skip to main content

Söngfélag Skaftfellinga

Söngfélag Skaftfellinga óskar eftir söngvurum í allar raddir
Fyrsta haustæfing Söngfélagsins verður þriðjudagskvöldið 9.
september í Skaftfellingabúð og hefst kl. 20 og verður æft öll þriðjudagskvöld.
Söngglaðir Skaftfellingar eru eindregið hvattir til að koma í kórinn og taka vini og vandamenn með sér. Eins og áður hefur komið fram er Söngfélagið opið öllum og best að vera með frá byrjun vetrar.

img_2939a

Söngfélagið

Söngfélagið á jólakonsert, 9. desember 2008 í Skaftfellingabúð.img_1896a

 

 

 

Söngstjóri er Friðrik Vignir Stefánsson.

Æfingar eru á þriðjudagskvöldum kl. 20:00 í Skaftfellingabúð.

SÖNGFÉLAG SKAFTFELLINGA
Stofnað 1973 – grein eftir Þórhildi Elíasdóttir frá 2003

Söngfélag Skaftfellinga er 30 ára um þessar mundir.  Á tímamótum sem þessum er gjarnan staldrað við og litið til baka.  Þrjátíu ár eru kannski ekki svo langur tími en það er eins og fleira afstætt og fer eftir því við hvað er miðað.  Það tók Skaftfellingafélagið rúm 30 ár að hrinda þessari hugmynd sinni í framkvæmd.  Skaftfellingar fara sér nú að engu óðslega en eiga þeim mun meiri þrautseigju.  Það er því líklegt að Söngfélagið eigi langa lífdaga fyrir höndum.  En hvað fær þá okkur til þess að verja svo miklu sem raun ber vitni af frítíma okkar í þágu þess.  Mér telst til að söngæfingar frá upphafi séu orðnar 1500 – að meðaltali 50 á vetri – og ef við tökum með ferðalög, tónleika og skemmtanir gætu þetta verið um það bil 6400 klukkustundir eða tæplega 800 vinnudagar (m.v. 8 stundir).  Ennþá eru 10 manns sem voru í upphafi og þar af 4 konur sem hafa verið samfellt.  Nálægt 250 manns hefur komið við sögu í lengri eða skemmri tíma.  Það er því augljóst að þörf er á að velja og hafna.  Reyndar var framboð á afþreyingu mun minna fyrir 30 árum og öll tilbreyting því kærkomnari en nú.  Fyrstu árin starfaði Söngfélagið sem karlakór, blandaður kór og kvennakór.  Óljóst er um formlega stofnun þess en aldurinn miðast við fyrstu söngæfingu blandaða  kórsins sem var 25. mars 1973.  Karlakórinn var þá raunar búinn að starfa í eitt ár eða frá 17. febrúar árinu áður.  Kvennakórinn varð til á árinu 1974. 
Upphaf kórstarfsins má rekja til ársins 1971 þegar ákveðið var á stjórnarfundi í Skaftfellingafélaginu að fá Jón Ísleifsson frá Jórvíkurhryggjum í Álftaveri til að leiða söng á fyrirhugaðri árshátíð félagsins á Hótel Borg 9.  mars 1972.  Sú hugmynd um að stofna söngkór á vegum Skaftfellingafélagsins í Reykjavík kom reyndar fram á fyrsta starfsári félagsins þegar Jóhannes Helgason lagði fram tillögu þess efnis á fundi 26. mars 1940 og „sé það áhugaefni margra félagsmanna”.  Virðist þar við sitja um sinn en í fundargerð 26. fundar félagsins 12. maí 1944 er rætt um að fá Jón Ísleifsson til að æfa söngkór og á næsta fundi eða þann 25. maí er Guðmundi Sveinssyni falið að hafa forgöngu um málið.  Tæpu ári seinna 25. apríl 1945 segir í fundargerð:  „Reynt hefur verið að stofna söngkór en ekki tekist”.  Það var svo eftir vel heppnaðan söng að aflokinni fyrrnefndri árshátíð að nokkrir áhugasamir félagar með Jón Hilmar Gunnarsson og Sigurð Brynjólfsson í fararbroddi ákváðu að stofna karlakór.  Þeim tókst á einni viku að ná saman nægilega stórum hópi þannig að fyrsta æfing var 17. febrúar að Fríkirkjuvegi 11, og að sjálfsögðu var Jón Ísleifsson stjórnandi.
Þar með var hugmyndin um stofnun „söngkórs”orðin að veruleika.
Eftir fyrstu söngæfinguna fékk karlakórinn inni í Lindargötuskólanum fyrir milligöngu Sigurðar Jónssonar frá Flatey á Mýrum en hann var þá húsvörður þar.  Bar hann hag kórsins mjög fyrir brjósti og sýndi hug sinn í verki, því hann tók ævinlega á móti söngfólkinu með kaffi og kökum þegar komið var á æfingar.  Var það ekki lítið framlag þar sem kórinn var mjög fjölmennur á þeim tíma – milli 70 og 80 manns.  Þegar svo Sigurður hætti störfum og finna varð annað húsnæði til æfinga lét hann það í engu aftra sér en færði söngfólkinu veitingar meðan honum entist heilsa til.  Slíkt er fátítt ef ekki einsdæmi og mun tryggð hans við Söngfélagið seint gleymast.  Sigurður lést árið 1983 og fékk þá söngfólkið tækifæri til að kveðja hann á sama hátt og hann hafði tekið á móti því.
Aðstöðunnar í Lindargötuskólanum naut kórinn til 1977.  Æfingar lágu niðri um haustið því um vorið hafði Jón Ísleifsson ákveðið að hætta störfum og það vantaði söngstjóra.
En í ársbyrjun 1978 hófst starfið aftur.  Húsnæði fékkst í Austubæjarskólanum og tekist hafði að fá annan söngstjóra Þorvald Björnsson.  Æfingaaðstaða þar var fremur takmörkuð en þar var æft til 1981 en þá keypti Skaftfellingafélagið húsnæði að Laugavegi 178.  Þar fékk kórinn inni og við það gjörbreyttist aðstaðan því auk þess að eiga vísan samastað fyrir æfingar var nú hægt að halda samkomur bæði til eflingar félagsstarfinu og til fjáröflunar.  En Söngfélagið fjármagnar sjálft starfsemi sína með kórgjaldi sem er ákveðið framlag á mánuði frá hverjum kórfélaga yfir veturinn og einnig með sameiginlegri fjáröflun þar sem hefðbundnum leiðum hefur verið fylgt með kökubasar, kaffisölu o.fl.  Fyrir ein jólin gaf Söngfélagið út jólakort og seldi.  Það var í raun Sólveig Stefánsson, ein úr hopnum sem átti heiðurinn af því..   Hún teiknaði kortið og sá um að koma því í prentun.  Kortin seldust vel og mun skemmtilegra en að kaupa kort til að selja eins og stundum hafði verið gert. En auðveldasta og árangursríkasta fjáröflunin gegnum árin var án efa að halda skemmtun í Skaftfellingabúð og fá „barinn leigðan”.  Þetta nýtti kórinn sér eftir föngum og þá voru Bjórkvöldin um tíma mjög vinsæl.  Þá var öðrum kórum boðið og árangurinn var tvíþættur.  Þetta jók kynni og gaf oftar en ekki vel í kassann.  Fyrir afnot af húsnæðinu í Skaftfellingabúð hefur ekki verið greitt en kórinn syngur á samkomum félagsins þegar þess er óskað.
Auk þessa hefur verið sóttur styrkur í sjóð sem heitir Menningasjóður félagsheimila.  Sá sjóður er undir stjórn Kristins Hallssonar söngvara og styrkir menningaferðir út á landsbyggðina.  Hefur kórinn fengið um kr. 80.000 fyrir hverja ferð sem farin hefur verið og sótt um styrk til.
Einnig hefur Skaftfellingafélagið styrkt Söngfélagið með beinum fjárframlögum í einhverjum tilvikum.  Sem sjá má af gögnum frá fundarhöldum gegnum árin að oft hefur verið rætt um hvernig félagið geti staðið við bakið á kórinum.  Sitt hefur sýnst hverjum í þeim umræðum, en óumdeilanlega er það sú aðstaða sem kórinn hefur haft í Skaftfellingabúð sem skipt hefur sköpum í starfi Söngfélagsins.

Söngfélagið hefur hefur haft sína eigin stjórn frá 1974.  Fyrsti formaður var Jón Hilmar Gunnarsson og með honum voru Sigurður Brynjólfsson meðstjórnandi og Hilmar Sigurðsson gjaldkeri.  Jón Hilmar var jafnframt sá sem var í forsvari frá upphafi og hefur því lengst allra gegnt formannsstarfi samfellt eða til vors 1977 og síðan 1989-1991.  Síðan 1977 hefur verið skipt um formann og hluta stjórnar á þann veg að enginn starfar lengur í stjórn en 2 ár í senn.  Upphaflega var stjórnin skipuð þremur mönnum, en fjölgaði frá árinu 1980 í fimm manns.  Þau sem síðan hafa gegnt formennsku eru:  Björn Sigurðsson 1978-1980, Þórhildur Elíasdóttir 1980–1983 og 1993–1995, Einar Brandsson 1983-1985, Kristinn Kjartansson 1985–1987 og 1991–1993, Ármann Óskar Sigurðsson 1987–1989, Sólborg Steinþórsdóttir 1995–1997, Lilja Arnardóttir 1997–1999, Edda Kristmundsdóttir 1999–2000, Sigurlína Kristjánsdóttir 2000–2002 og núverandi formaður er Kolbrún Einarsdóttir.

Söngfélagið hefur notið aðstoðar þriggja söngstjóra í þessi 30 ár.  Sá sem fékk það hlutverk að hefja og móta starfið var sem fyrr segir Jón Ísleifsson fæddur að Jórvíkurhryggjum í Álftaveri 24.02.1903.  Hann fluttist til Reykjavíkur 1927.  Starfaði þar sem kennari og orgelleikari.  Hann var stjórnandi kirkjukórs Neskirkju þegar hann tók við stjórn Söngfélagsins.  Hann var harðduglegur og ósérhlífinn sem berlega kom í ljós við skipulagningu og undirbúning fyrir brúarvígsluna á Skeiðarársandi.  Hann hafði eldlegan áhuga á kórstarfinu og stjórnaði sínu fólki af hörku og ákveðni.
Undirleikarar í hans tíð voru þær Jónína Gísladóttir og Sigríður Kristinsdóttir.

Jón stjórnaði til 1977, en þá tók við Þorvaldur Björnsson fæddur að Efra–Vatnshorni V.Hún.  Hann fór ungur að spila á hljóðfæri og lærði fyrst á orgel hjá Páli Ísleifssyni.  Síðan kom harmonikkan til sögunnar.  Þorvaldur lauk tónmenntakennaraprófi frá Kennaraskólanum 1955.  Starfaði sem tónmenntakennari í Breiðagerðisskóla og sem kórstjórnandi.  Einnig lék hann mikið á harmonikku hérlendis og erlendis.  Hann hafði þann eiginleika að geta vakað og unnið eins og með þurfti og var ekki að sjá að það kæmi niður á því sem hann var að fást við.  Upp í hugann kemur tónleikaferð sem farin var austur að Kirkjubæjarklaustri ásamt Kór Rangæingafélagsins í Reykjavík.  Ákveðið var að skemmta sér með heimamönnum eftir tónleikana.  En báðir söngstjórarnir áttu mæta við athöfn í Garðakirkju kl. 10 morguninn eftir.  Það var því fenginn „kálfur” með rútunum til að fara með þá til Reykjavíkur strax eftir söng um kvöldið.  Það tók Þorvaldur ekki í mál þrátt fyrir þrábeiðni félaga síns um að koma nú með sér „því ekki væri nokkurt vit í því að mæta ósofinn í kirkjuna”.  En Þorvaldur spilaði á harmonikkuna alla leiðina heim – eða til kl. 7 um morguninn.  Ég veit að hann mætti í kirkjuna á tilsettum tíma og lauk sínu hlutverki með sóma.  Þorvaldur var með okkur til vors 1982.  Fór þá erlendis til að mennta sig frekar í tónlistinni.  Undirleikarar með honum voru Agnes Löve og Sigurður Daníelsson.

Um haustið 1982 var svo ráðin til starfa Violeta Smid sem ennþá er stjórnandi.  Hún er fædd í Búlgaríu.  Stundaði tónlistarnám við Tónlistarháskólann í Prag í Tékkoslóvakíu og lauk þaðan prófi 1970 með orgelleik sem aðalgrein og semballeik sem aukagrein.
Eiginmaður Violetu var þá Pavel Smid, undirleikari kórsins í 18 ár, fæddur í Tékkoslovakíu.  Hann lauk tónlistarnámi frá sama skóla og Violeta árið 1973 með sömu aðalgrein en píanóleik sem aukagrein.  Þau komu til Íslands árið 1975 og voru  búin að vera við tónlistakennslu og kórstjórn á Eskifirði og Reyðarfirði þegar til þau fluttu til Reykjavíkur sumarið 1982.  Þau hófu þá bæði að kenna við Söngskólann í Reykjavík og er Violeta enn við kennslu þar.  Það er ljóst að Söngfélaginu er mikill akkur í því að hafa fengið svo vel menntað tónlistarfólk til samstarfs.Violeta er ljúf og þolinmóð , hefur gott lag á að létta andrúmsloftið með því að segja  “brandara” eins og henni einni er lagið.   Undirleikarar nú síðustu ár hafa verið þau Richard John Simm 2002 og nú í vor Crystyna Cortes.
Pavel hefur raddsett fyrir Söngfélagið og samið undirleik við þau lög sem sem hann hefur leikið undir.  Einnig hafa þeir Þorvaldur Björnsson og Hreinn Valdimarsson raddsett nokkur lög sem hafa verið flutt á tónleikum. 
Af og til hefur verið fengið tónlistarmenntað fólk til að raddþjálfa. 
Jafnan hefur verið reynt að hafa fjölbreytt lagaval og lögin sem hafa verið æfð og flutt á tónleikum eru orðin um 270.  Farið hefur verið í smiðju Skaftfellinga í leit að viðfangsefnum.  Skaftárþing er það lag sem alltaf er sungið á tónleikum.  Höfundur þess er Sigurjón Kjartansson frá Vík, ljóðið er eftir Stefán Hannesson frá Litla Hvammi en það varð til þegar höfundur var á ferð með skólabörn upp á Háfelli  sem er nokkuð háttt fjall við rætur Víkurkauptúns á fjórða áratug síðustu aldar.  Eftir Sigurjóner líka lagið Glitperlur glóa ljóðið eftir Valdimar Jónsson frá Hemru. Í Skaftártungu  Ástarþrá og Hornafjörður eftir Bjarna Bjarnason frá Brekkubæ.  Mín Sveitin kær eftir Sigríði Ólafsdóttur.  Einn af kórfélögunum Steinn Stefánsson fyrrverandi skólastjóri á Seyðisfirði, fæddur              í Suðursveit                        dáinn                         samdi mikið af fallegum lögum og hefur  kórinn flutt  nokkur af þeim á tónleikum.  Má þar nefna Í álögum, Hún kyssti mig og Ljóðabréf til lítillar stúlku.
Þá hefur Iðunn dóttir Steins sungið með kórnum og samið og þýtt texta.  Það kemur upp í hugann að Iðunn var bæjarstjórafrú á Húsavík hér fyrr á árum þegar gjarnan var litið svo á að konur kynnu lítið fyrir sér annað en sinna heimilisstörfum.  Iðunn gerði á þeim tíma texta við dægurlög.  Húsvíkingar töldu að Björn bóndi hennar ætti þá hugarsmíð.  En þar sem hann var bæjarstjóri teldi hann ekki viðeigandi að fást við slíkt þannig að hann bjargaði sér með því að eigna Iðunni texta sína.

Eins og fyrr hefur komið fram starfaði Söngfélagið sem karlakór, blandaður kór og kvennakór fyrstu árin eða til 1977.  Síðan hafa orðið til nokkrir smærri sönghópar sem hafa komið fram á tónleikum ásamt einsöngvurum.  Fyrstir stigu á svið þeir Ármann Óskar Sigurðsson, Magnús Gunnarsson, Jóhannes Pálsson og Sævar  (frá Kór Rangæinga ) og kölluðu sig Hensonbræður.  DABBA DABBA var nafn á hópi sem varð til 1985 en það voru nokkrar ungar stúlkur sem flestar voru í kórnum fyrir tilstilli Ármanns Óskars.  Tíundin varð til um 1992/93  en hún var að hluta „pör” sem voru þá að syngja með kórnum.  Stjórnandi Tíundar var Erla Þórólfsdóttir þá kona Ármanns Óskars.  Erla söng með kórnum og var í söngnámi.  Auk þeirra voru Lilja og Hróbjartur, Anna og Guðmundur, Margrét og Kristján ásamt þeim Sólborgu og Ragnheiði.  Árið1996 kom til annar 10 manna hópur og söng saman nokkur lög undir stjórn Pavel Smid.  Þau kölluðu sig „Litla kórinn Sólborgu.  Að sjálfsögðu var Sólborg þar þátttakandi ásamt Lilju, Bjarneyju. Sólrúnu ,Önnu Walström, Geirfinnu (sem var fengin að láni), Hreini, Hróbjarti, Kristni og Ármanni Óskari.  Það kemur í ljós þegar farið er að skoða söguna að Ármann Óskar á sinn þátt í öllum þessum hópum.  Hann var mjög ungur þegar hann byrjaði að syngja með kórnum og var því helstur til að draga að sér yngra fólkið.  Hann fór síðan í söngnám og hefur oft sungið einsöng á tónleikum.  Einnig hefur hann sungið tvísöng og „glunta” með föður sínum Sigurði Brynjólfssyni sem var einn af stofnendum söngfélagsins.  Einnig dúetta með Erlu Þórólfsdóttur en hún söng einsöng á tónleikum meðan hún söng með kórnum. Sigurður Brynjólfsson og Jón Hilmar hafa sungið saman ,   Sigrún Björnsdóttir, Stefán Bjarnason og Kristinn Kjartansson og nú í vor Unnur Sigmarsdóttir hafa  sungið einsöng.  Kristinn hefur í gegnum árin skemmt kórfélögum með harmonikkuleik sínum.  Það hafa þau líka gert Jón Hilmar Gunnarsson, Valgerður Sumarliðadóttir og Magnús Gunnarsson, sem einnig reyndist góður leikari.  Auk þess hafa verið kallaðir til einsöngvarar þau Friðrik Kristinsson, á þeim tíma nemandi í Söngskólanum sem við fengum með „austur á firði” 1985; Loftur Erlingsson; og Alda Ingibergsdóttir.
Söngfélagið hefur átt samstarf við aðra kóra og þá lengst við Kór Rangæingafélagsins í Reykjavík eða í 5 ár samfellt.  Í formi
skemmtana hér í Reykjavík, tónleika í Gunnarshólma 1980, söngferðar til Víkur og Kbkl. 1981, söngferðar norður á Blönduós og Hvammstanga 1982, tónleika í Skaftfellingabúð 1983 og söngferðar til Vestmannaeyja 1984.  Söngstjórar Kórs Rangæinga voru á þessum tíma Njáll Sigurðsson, Þóra Guðmundsdóttir og Anna Ingólfsdóttir og undirleikari Bjarney Þrúður Ingólfsdóttir.  Þetta var mjög ánægjulegt samstarf.  Árið 1999 héldu þessir kórar svo sameiginlega tónleika, eftir langt hlé á samstarfi, í Fella og Hólakirkju.  Söngstjóri Rangæinga var þá Elín Ósk Óskarsdóttir.
Með Húnakórnum voru haldnir tónleikar 1995, söngstjóri þeirra var Sesselja Guðmundsdóttir.  Með Reykjalundarkórnum 2001 og 2002, söngstjóri Íris Erlingsdóttir og undirleikarar Judith Þorbergsson og Hjördís Elín Lárusdóttir.  Einnig með Kór Víkurkirkju og Átta í lagi 1988 í Reykjavík, stjórnandi Kristina Seklenár.  Með Kór Landakirkju 1984, stjórnandi Guðmundur H. Guðjónsson og Söngfélaginu Sálubót 1995 á Stóru-Tjörnum, stjórnandi Svanbjörg Sverrisdóttir og undirleikari Magnús G. Gunnarsson (séra Magnús okkar).
Árið 1981 gaf kórinn út sína fyrstu og einu hljómplötu, Mín sveitin kær.  Undirbúningur að útgáfunni hófst 1979 í tíð þáverandi formanns Björns Sigurðssonar.  Hann bar hitann og þungann af því starfi ásamt söngstjóranum þáverandi Þorvaldi Björnssyni. 
Björn er nú látinn (1. maí) sem og kona hans Unnur Tryggvadóttir, (       ) en hjá þeim hafa varðveist upptökur af þeim tónleikum sem haldnir hafa verið í Reykjavík til 1989.  Söngfélagið minnist með þakklæti þess sem þau lögðu af mörkum til þessa félagsskapar. 

Þegar þeirra naut ekki lengur við og nútímalegri tækni tók við hefur Hreinn Valdimarsson tekið að sér þennan þátt..  Við vorum svo heppin að hafa hann í hópnum frá 1993-1998.  Hann hefur tekið upp alla tónleika frá þeim tíma og tvívegis sett úrvalið á geisladisk.  Hann hefur haldið þessu starfi áfram þótt hann syngi ekki lengur með og er það ómetanlegt.


Eitt það fyrsta og líkast til stærsta verkefni sem Söngfélagið hefur fengið var að syngja við brúarvígslu og opnun hringvegarins á Skeiðarársandi 14.júlí 1974.  Það sama sumar tók kórinn einnig þátt í Þjóðhátíð á Kleyfum.  Þá voru í kórnum nær 80 manns og hefur hann aldrei orðið fjölmennari
Í fundargerðabók Skaftfellingafélagsins frá aðalfundi félagsins er að finna ítarlega frásögn af þessum 2 atburðum skráða af Guðjóni Jónssyni en orðrétt er frásögnin á þessa leið.
Ein samæfing var í Vik fyrir allan Þjóðhátiðarkórinn Söngfélagið og kirkjukóra V-Skaft, og var á meðan opið´hús fyrir heimamenn í Mýrdal , sem margir notfærðu  sér það.
Önnur samæfing var í Vík  16. júní, en síðan hélt Söngfélagið að Kirkjubæjarklaustri og fékk gistingu í samkomuhúsi staðarins.  Næsta morgunn vígði biskup minningarkapellu Jóns Steingrímssonar.eftir hádegi var þjóðhátíð  haldin  að Kleyfum við hin bestu skilyrði-
En því miður for að rigna og mátti ekki seinna vera að söngfólkið lyki hlutverki sínu sem það skilaði með miklum sóma.  Tala þess var alls 141, þar af 66 í Söngfélaginu,59 frá þrem kirkjukórum V-Skaft. (Skeiðflöt 17, Vík 21, Prestbakki 21) og 16 í karlakórnum Kvistum.
Laugardag 13. júlí var haldið að Kirkjubæjarklaustri og æft með heimamönnum í hinni nýju kapellu,en á eftir veitti Eddu hótel staðarins góðan beina í boði þjóðhátíðarnefndar, er svo galt Söngfélaginu þökk sína.  Síðan var haldið til Öræfa og gistu flestir á Hofi, í samkomuhúsi eða tjöldum, en aðrir tjölduðu á næstu bæjum.
Sunnudagurinn 14. júlí rann upp bjartur og fagur.  Um hádegi var komið að Skeiðará, þar sem hátíðasvæði hafði verið markað sunnan við brúarsporð vestan ár.  Vegagerð ríkisins hafði mikinn viðbúnað, m.a. stóran pall (fyrir dans) og tjaldað yfir með glæru plasti, mikið svið og þar á söngpalla ákaflega góða , sem áður höfðu verið lánaðir að Kleifum 17, júní, en þá hafði  Helgi Hallgrímsson verkfræðingur Vegagerðarinnar látið smíða eftir forsögn Jóns Ísleifssonar.
Hér hófst flutningur hátíðardagskrár að loknum formsatriðum á brúnni, þar sem hún var lýst opinn til umfeðar og þar með hringvegur um Ísland.  Í miðri ræðu Eysteins Jónssonar, formanns Náttúruverndarráðs, sem mjög beitti sér fyrir framkvæmdum þessum, tók skyndilega að rigna ákaflega og herti á í sífellu, uns gjallarhorn fyllti og svo glumdi í plasthimninum, og ekki heyrðist mannsins mál, og neyddist Eysteinn til að gera hlé á ræðu sinni.  En undan Jökulfelli þóttust menn þá heira kveðið dimmum kerlingarrómi.

                                        
 “Mígðu systir, remmum reiðina!
                                           rigni forsum yfir skeiðina,
                                           árvöxt drýgjum,eflum seiðina
                                           Eysteinn, - farðu hina leiðina!”

Og minntust menn þess þá, að stefna Eysteins undir Viðreisn (1959-71) hafði hlotið nafnið HIN LEIÐIN.  Brátt létti þó dembunni, enda engin von að nokkurri skessu  entist til langframa örendi til þvílíks úrhellis, og hélst síðan dýrðarveður eins og verið hafði.Mikið fjölmenni sótti hátíð þessa,  sem öðru fremur var “landnámshátíð”, í þeim skilningi, að með vegi inn Skeiðarársand var  Ísland enn numið með sérstökum hætti og framar en áður varð auðið.  Lagðist allt á eitt til að veita hátíðinni reisn.  Náttúran, veður jafnt og umhverfi, gestafjöld og prúðmennska, góður viðbúnaður, virðuleg dagskrá.  Og  það fór ekki milli mála að Jón Ísleifssonog hinn stóri hópur söngfólks áytti hér góðan hlut.  Í þeim hópi átti Söngfélsgið 58, kirkjukórar V-Skaft. 40 (Skeiðflöt 15, Vík 11, Prestbakki 14) karlakórinn Kvistir 9 og loks karlakórinn Jökull í A-Skaft 35 alls 142.
Lengi vel var tvísínt um þátttöku Jökuls, sökum tómlætis skipleggjanda að ætla verður, en þar á lagði Söngfélagið mikla áherslu frá upphafi, og hafði að lokum nauman sigur.  Sungu allir karlakórarnir saman undir stjórn Sigjóns Bjarnasonar, söngstjóra Jökuls.  Fyrsta lag þeirra var eftir Árna Thorsteinsson (Landið vort fagurt) við ljóð sem Guðjón Jónsson hafði að beiðni Jóns Ísleifssonar ort fyrir þetta tækifæri sérstaklega, og sagði hann fyrst ljóðið.

Fjalladrottning prúða með fannskautið bjarta
friðsædt í dölum og söngfugl í mó,
hafdjúpið brimhvítt við sandanna avarta,
sólvermdar hlíðar og laufgrænan skóg.
  
  Eldhjarta titrar, íshrammar skríða,
  árflaumur straumtypptur beljar um láð
  aðskilur byggð meðan aldirnar líða:
  Yndi sem vá hafa forlög þér skráð.

Beizlum vér fljótin, byggðirnar tengjum !
Blessan um aldur sé vekinu trú.
Verði enn skaftfellskar auðnir að engjum,
-Island til gróandi mannfélags brú.

  Fjallkona, móðir, þér fóstrið skal gjalda,
fagnandi hylla þig börn þín í dag,
  helga þér söguna, ellefu alda,
  -eiðsvarinn jafnan að vernda þinn hag.

            Í heild voru söngvar sem hér segir
1. Yfir voru ættarlandi (Steingrímur Thorsteinsson)
2. Þjóðsöngurinn (í helgistund  Sigurbjörns Einarssonar 
  fyrsta vers á undan ávarpi biskups)
3. Þjóðhátíðarþeyr 1974: Við strauma elds.(Guðjón Jónsson-Sigurjón Kjartansson)
4. Skaftárþing: En sú dýrð (Stefán Hannesson-Sigurjón Kjartansson)
5. Minni Ingólfs: Lýsti sól (Matthías Jochumsson-Jónas Helgason)
6. Vorljóð 1974: Blómadísir Guðbjörg Jónsdóttir- Jón Laxdal)
7. Látum af hárri heiðarbrún (Matthías Jochumsson- Íslenskt þjóðalag)
8. Sveitin mín: Fjalladrottning (Sigurður Jónsson-Bjarni Þorsteinsson)
Ræða Eysteins Jónssonar var eftir Minni Ingólfs.  Hér flutti ávarp Matthías Jóhannessen, formaður “Þjóðhátíðarnefndar 1974”
 Síðan söng karlakórinn fjögur lög.
1. Til Fjallkonunnar 14. júlí 1974.  (Guðjón Jónsson-Árni Thorsteinsson)
2. Íslandsvísur: Ég vil elska mitt land (Guðmundur Magnússon-Bjarni Þorsteinsson)
3. Ísland: Þú álfu vora yngsta land (Hannes Hafstein-Sigfús Einarsson)
4. Sveitin mín: Fjalladrottning Sigurður Jónsson-Bjarni Þorsteinsson)
Sömu söngvar voru á þjóðhátíð V-Skaft. nema þar var ljóð Árna Thorsteinssonar, landið vort fagra sungið við lag hans.  Undirleikari var Sigríður Einarsdóttir.
Eitt dagblaðanna segir frá brúarvígslu 16. júlí:
Mest og best á þeirri dagskrá var söngur blandaðs kórs reykvískra Skaftfellinga og kirkjukóra V-Skaftafellsprófastsdæmis, undir styrkri og öruggri stjórn Jóns Ísleifssonar.
Svo mikið er víst, að Jón Ísleifsson verðskuldar mikið lof, slíkt afrek vann hann við erfiðar aðstæður með óþjálfuðu söngfólki að miklum hluta, jafnvel algerum byrjendum án nokkurrar samæfingar alls hópsins fyrr en á mótsstað.  Enda sparaði hann hvorki sjálfan sig né tíma sinn við æfingar og kennslu  í Reykjavík og með kirkjukórum eystra, sem hann heimsótti margsinnis og m.a. fórnaði heilli viku fyrir mótið.  Seinlæti forráðamanna lét hann aldrei á sig fá, en vann markvisst og örugglega, þótt næstum til síðustu stundar væri óljóst og óstaðfsest, hvað þeir í rauninni vildu, einkum hinir mörgu aðilar að brúarvígslu.  Eitt verka hans var að finna og senda austur forláta gott píanó til undirleiks, og var það síðar keypt til samkomuhússins á Kirkjubæjarklaustri.
Einstakir kórfélagar lögðu einnig mikið fram, og margir þeirra fóru oftar en einu sinni á samæfingr í Vík austan af Síðu og frá Reykjavík. 
Að kvöldi hátíðadags dreifðist hópurinn.  Flestir ferðuðust á einkabílum,en nokkrur hluti Söngfélagsins var í hópferðabíl og hélt til Hornafjarðar, þar sem gist var í Nesjaskála.  Daginn eftir ferðaðist sá hópur um Hornafjörð og Lón, og á þriðjudag um Mýrar og Suðursveit og gisti í skálanum þar.  Miðvikudag 17. júlí hélt þessi hópur til Reykjavíkur og lauk strangri, en mjög góðri ferð.  Aðrir félagar voru ýmist á undan eða á hringferð um landið, í fyrstu sinn.  Sameiginleg öllum er minningin um dásamlegan dag og  hátíðastund, og líkur hér að segja frá  Skaftfellingamóti aldarinnar.    

 

 

 

Söngfélagið er aðili að Landssambandi blandaðra kóra (LBK) og tók þátt í 40 ára afmælishátið þess 1978 sem haldin var í Laugadalshöllinni.  Þar hóf þúsund manna kór undir stjórn Garðars Cortes upp  raust sína og er ógleymanlegt þeim er á hlýddu.  Þetta var síðan endurtekið 10 árum síðar á 50 ára afmæli LBK 5. nóvember 1988.  Þá var haldin vegleg hátíð um kvöldið sem hófst með borðhaldi kl. 20.00.  Þar flutti þáverandi menntamálaráðherra Svavar Gestsson ræðu og fram komu þekktir skemmtikraftar og einnig lögðu kórarnir til skemmtiatriði.

Á 20. afmælisári Söngfélagsins 1993 fékk kórinn tækifæri til að koma fram með söng og viðtöl í útvarpsþætti hjá Vernharði Linnet fyrir milligöngu Hreins Valdimarssonar.  Svo skemmtilega vildi til að þegar þessu var útvarpað 30. október var kórinn á leið heim úr söngferðalagi frá Vík og Kirkjubæjarklaustri og hlustuðu því kórfélagar sameiginlega á útsendinguna.   Þessi upptaka er til á kassettu.

Ýmsir viðburðir í starfinu hafa náð að festast í sessi og orðið árvissir.
Má þar nefna að Skaftfellingafélagið heldur á hverju ári kaffiboð fyrir eldri Skaftfellinga.  Þar mæta kórfélagar með kökur og annað meðlæti og syngja. 
Þá hefur „vinastund á aðventu” orðið fastur liður áður en jólaleyfi hefst hjá Söngfélaginu.  Upphafið að því var um 1980.  Þá var á síðustu æfingu fyrir jól sungin jólalög, boðið uppá kaffi og meðlæti, og kórfélagar buðu börnum og mökum með á æfinguna.  Þetta þróaðist síðan í fjölskyldusamkomu á sunnudegi með fjölbreyttri dagskrá, sögustund, hljóðfæraleik og söng, bæði barna og kórs. 
Þá syngur kórinn að jafnaði á árshátíðum félagsins.
Fyrsti samsöngur Söngfélagsins í Reykjavík var í Háteigskirkju 24. apríl fyrsta sumardag 1975.  Þar komu fram karlakór, kvennakór og blandaður kór.  Árið1976 var samsöngur í kirkju Óháða safnaðarins en sumardaginn fyrsta 1977 kom Söngfélagið fram með þrískiptan kór í síðasta skiptið.
Tónleikar í lok starfárs hefur síðan orðið fastur liður ásamt ferðalagi út á landsbyggðina.  Oft hefur verið farið á heimaslóðir.  Á Hornafjörð og í Hofgarða en oftast þó á Kirkjubæjarklaustur með viðkomu í Vík. 
Í einni slíkri ferð lentum við í hremmingum á Mýrdalssandi.  Þegar söng var lokið í Vík kom í ljós að á sandinum var sandrok.  Þegar kom austur að Múlakvísl leist bilstjórunum ekki á veðrið voru hræddir um að skemma bílana, þeir voru tveir því Kór Rangæinga var með í för. 
Svo við biðum í 4 klukkutíma á brúnni yfir Blautukvísl eftir að vindinn lægði.  Við mættum á Kirkjubæjarklaustur rétt eftir að tónleikar áttu að hefjast.  Það var skipt um föt og kórinn vatt sér á svið til að syngja.  Kvöldmaturinn sem við áttum fyrir löngu að vera búin að snæða varð að bíða betri tíma.  Söngurinn tókst vel og maturinn smakkaðist býsna vel eftir söng.

Vorið 1977 bauð Karlakórinn Jökull Söngfélaginu í 3ja daga söngferð til Hornafjarðar 1.–3. maí.  Hér á eftir fer frásögn Jóns Hilmars Gunnarssonar
tekin úr ársskýrslu stjórnar til aðalfundar Skaftfellingafélagsins 1978.  Orðrétt er frásögnin á þessa leið:
Starfsemi Söngfélagsins 1976-77 lauk með ógleymanlegri ferð austur að Höfn í byrjun maí.  Fyrsti áningastaðurinn var Víkurskáli.  Þar voru kórfélögum bornar veitingar.  Síðan var haldið í Skaftafell en þar opnuðu Öræfingar veitingaskálann sérstaklega og buðu veitingar.  Austur í Suðursveit tók sveitarsjórinn á móti kórnum.
Félagar úr Karlakórnum Jökli greiddu götu kórsins og var öllum kórfélögum komið fyrir á heimilum karlakórsmanna.
Lauk þessari ferð með kvöldverði á Hótel Höfn í boði Austur Skaftafellssýslu, Kaupfélags A-Skaft. og Hafnarkauptúns.  Að loknum Samsöng í Sindrabæ með karlakórnum Jökli og dansi fram á nótt.  Haldið var til Reykjavíkur morguninn eftir – sunnudagsmorgun og sungið í Leikskálum í Vík kl. 16.00 þann dag.
En fleira bar til tíðinda í þessari ferð sem ekki var sett í ársskýrslu.
Eins og þeir vita sem voru í kórnum á þessum tíma var söngstjórinn Jón Ísleifsson ákafamaður og stundum dálítið æstur.  Eitthvað varð til að koma honum úr jafnvægi þegar upphitun hófst fyrir tónleika.  Hornfirðingar mættu snemma og voru farnir að tínast í salinn.  Klapplið kórsins var í salnum og fylgdist með þegar söngstjórinn barði í púltið en það hafði verið sett upp á borð í staðunn fyrir venjulegt nótnastatív, sem ekki var á staðnum.  Púltið hrundi nokkrum sinnum niður á gólf þar til einhverjum datt það í hug að finna snærisspotta og binda púltið fast við borðið.  Söngstjórinn var úfinn og ægilegur á að líta og steytti hnefana eins og honum einum var lagið og sýndust söngfélagar skelkaðir og vissu ekki hvað yrði næst.  En allt fór vel að lokum.  Tónleikarnir gengu vel og allir fóru ánægðir til kvöldverðar.

Árið 1985 var farin 3ja daga ferð austur á firði.  Á föstudegi var flogið til Egilsstaða, þar var sungið og snæddur kvöldverður.  Tónleikarnir voru í kirkjunni og svo einkennilega brá við að eitt lagið á söngskránni hugnaðist ekki sóknarnefndinni og leyfði hún ekki að það væri sungið í kirkjunni.  Þetta var Einn lítill afmælisdiktur lag Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Þórbergs Þórðarsonar.  En það var sérstaklega ein hending í ljóðinu „en hitt gert undir leiði” sem þeim fannst ekki viðeigandi.  Kórfélagar gátu ekki hugsað til þess að yfirgefa staðinn án þess að syngja þetta annars ágæta lag svo það var bara sungið undir kirkjuveggnum í staðinn.  Síðan var ekið á Reyðarfjörð en þar hafði kórinn gistiaðstöðu.  Á laugardeginum voru svo aðaltónleikarnir á Eskifirði en þar höfðu þau Violeta og Pavel verið með tónlistarkennslu og stjórnað Eskjukórnum.  Þar var einnig snæddur kvöldverður og síðan dansað og sungið meira.  Á sunnudeginum var svo flogið til Reykjavíkur eftir vel heppnaða helgi.
Við sóttum heim Stykkishólm 1990 og aftur 1999.  Til Vestmannaeyja lá leiðin 1984 með Kór Rangæinga og með þeim fór kórinn einnig 1982 norður á Blönduós og Hvammstanga á síðasta starfsári Þorvaldar Björnssonar, en það eru hans heimaslóðir.
Á 20. afmælisári Söngfélagsins fór nokkur hópur til Glasgow.  Það var ekki eiginleg söngferð en góð ferð eigi að síður og eitthvað sungið enda var söngstjórinn Violeta með í för.
Ekki er hægt að ljúka frásögn af ferðalögum án þess að minnst á bílstjórana þá Jón Sigurjónsson frá Galtalæk og Hákon Jón Kristmundsson sem hafa afrekað það að koma öllum áfallalaust heiman og heim.  Jón hefur eflaust þurft að taka á þolinmæðinni við að bíða og hlusta á söng og aftur söng.  En hann stytti sér stundir við að setja saman vísur um það sem fyrir bar.
Í lok einnar ferðar þegar ekið var Hellisheiðina mót lækkandi sól orti Jón.
Gangi ykkur gott í hag
góða þökk fyrir liðinn dag.
Lítil kveðja lögð í brag
lít ég fagurt sólarlag.

Og önnur í  ferðalok:

 Hafið þökk fyrir þessa ferð
Hún var vel af ykkur gerð
Lifið þið öll í landinu spræk
Lítil kveðja frá Jóni á Læk (Galtalæk)


Einhver hafði orð á ekki væru allir glaðlegir á svipinn við sönginn og hafði Sólborg bent Guðmundi á þetta.  Jón sagði þá:

Þið sunguð öll af lífi og sál
Skemmtuð mér og fleirum.
Engin döpur er hér sál
og brosir Guðmundur út að eyrum.

Eftir velheppnaða tónleika á Hofi hélt heimamaður tölu og vitnaði í texta sem hann hlýddi á og taldi að það vantaði meyjar í sveitina.
Á leiðinni yfir í Freysnes orti Jón:

Í Öræfunum eiga þeir skepnur og hey
en vantar í eldhúsið hraustlega mey.
En það skaltu vita hér þýðir ei nei
Þú ert á lausu ungfrú Bjarney


Á ferð með Söngfélaginu 30. og 31. október 1993.


Af því núna létt er lund
Lifnar alltaf grínið
Ef við eigum stutta stund
Stans við postulínið

Aldrei hverfur úr huga mér
Heilla vinur slyngi
Að Skaftfellingar skemmti sér
Við skógrækt í Rangárþingi

 

Það er ljóst að ýmislegt hefur á daga Söngfélagsins drifið þessi 30 ár og fráleitt að allt sé upp talið.  En eigi enhver eftir að hafa ánægju af að rifja upp það sem gerst hefur eða jafnvel uppgötvi eitthvað sem ekki var áður vitað er tilganginum með þessari samantekt náð.

Vel mætt á Skaftfellingamessu í Breiðholtskirkju

skaft-messa-03Sunnudaginn 9. mars var haldin Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju, en þar þjóna Sr. Bryndís Malla Elídóttir sem áður þjónaði á Klaustri og Sr. Gísla Jónasson prófastur sem áður þjónaði í Vík. Að austan kom sr. Haraldur M. Kristjánsson prófastur og sóknarprestur í Vík og Sr. Ingólfur Hartvigsson á Klaustri ásamt kirkjukórunum í Vestur-Skaftafellssýslu. Einnig tók þátt í athöfninni Sr. Sigurjón Einarsson fyrrum prófastur og prestur á Klaustri og Sr. Hjörtur Hjartatarson fyrrum prestur að Ásum. Um söng sá síðan kór Breiðholtskirkju, kirkjukórar í Vestur-Skaftafellssýslu og Söngfélag Skaftfellinga. Að lokinn messu bauð Söngfélag Skaftfellinga upp á kaffihlaðborð og söng nokkur lög undir stjórn og spilamennsku Friðriks Vignis Stefánssonar en vortónleikar kórsins verða 1. maí í Seltjarnarneskirkju. Um 240-250 manns voru í messunni og um 200 manns í kaffinu á eftir.

Fleiri myndir er að finna í myndasafni.