Skip to main content

Hagyrðingakvöld

Í tilefni sjötíu ára afmælisins verður haldið hagyrðingakvöld í Skaftfellingabúð föstudaginn, 19. nóvember 2010, kl. 20:00, undir stjórn Ómars Ragnarssonar.
Þar leiða saman hesta sína Austur‐Skaftfellingarnir Torfhildur Hólm Torfadóttir á Gerði, Halldór Þorsteinsson í Svínafelli og Vestur‐Skaftfellingarnir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir á Ljótarstöðum og Reynir Ragnarsson í Vík. Að kveðskap loknum verður stiginn dans undir harmonikkuleik valinkunnra snillinga.
Aðgangur ókeypis, en léttar veitingar seldar.

Fýlaveisla

Fýlaveislur Skaftfellingafélagsins hafa átt vinsældum að fagna til margra ára, en aldrei hefur aðsókn verið jafn mikil og nú í haust. Þurfti að vísa þó nokkrum frá þar sem húsið varð stappfullt. Eins og undanfarin ár var fýllinn verkaður af hjónunum í Prestshúsum og stærðar rófnapoki barst frá Þórisholti. Inga Jóna Sigfúsdóttir sá um allan undirbúning og eldamennsku af mikilli alúð og Rósa frá Eyjarhólum var henni til halds og trausts. Þórunn og Signý Heiða stóðu barvaktina sem fyrr. Hljómsveitir komu tvær frá Vík eins og hefð er fyrir síðustu haust, Tónabræður og Granít héldu uppi fínni dansmúsík fram á nótt og dansinn dunaði.  Myndir frá veislunni eru komnar inn á Myndasafnið.

 img_8883.jpgimg_8945.jpgimg_8924.jpgimg_8962.jpg

Öræfaball 2010

Ball í fundarhúsinu
Fyrrum sumardvalarbörn í Öræfum, ásamt öðrum sem þar eiga og áttu heima, gerðu sér glaðan dag í Skaftfellingabúð laugardagskvöldið 6. nóvember. Þetta var í annað sinn sem haldið er slíkt „Ball í fundarhúsinu“. Hitt var fyrir réttu ári. Þátttaka var minni nú en í fyrra en sumir komu langt að, allt frá Hornafirði og Patreksfirði. Þeir sem mættu áttu ánægjulega kvöldstund með sögum, söng, veitingum og að sjálfsögðu balli.  Sagnafólkið átti það flest sammerkt að hafa verið sent í sveitina á síðustu öld, ungt að árum, til að taka þar þátt í daglegu lífi. Allt átti það sterkar minningar frá þeim tíma en bjart var yfir þeim flestum.
Guðbjartur Sigurðsson var á Kvískerjum og lýsti skemmtilega ýmsum tækniundrum sem útbúin voru þar. Hann var sex sumur í sveitinni og sá aðeins einn mann drukkinn.
 Ingibjörg Gréta Gísladóttir iðkaði hannyrðir á Hofsnesi og lærði að umgangast stráka með lagni. En eftir einn rúningsdag var loðni, svarti hundurinn hans Péturs ekki loðinn lengur.
Vestmannaeyingurinn Bogi var í Hofskoti og rifjaði upp rekstur sauða í Breiðamerkurfjall laust eftir 1940, rétt eins og gerst hefði í gær, ásamt gerð skinnskóa og öðrum undirbúningi undir ferðina.
Björgvin Schram var sex ára þegar hann kom fyrst að Litla-Hofi um 1950 og var með bullandi heimþrá fyrstu dagana. Honum var ráðlagt að skrifa mömmu sinni til að segja henni að hann væri væntanlegur heim en áður en bréfið var tilbúið hafði hann fest yndi. 
Sigurður Vilberg Sigurjónsson lærði margan vísdóm í Austurbænum í Svínafelli meðal annars að setja skýjafar yfir Súlnatindum í samhengi við veðurspádóma. 
Á milli hins talaða orðs ómaði salurinn af söng og hljóðfæraleik, bæði frá brottfluttum Öræfingum sem æft höfðu nokkur lög og almennings sem tók hressilega undir þegar við átti.  
Þorsteinn Jakobsson frá Skaftafelli og Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Hnappavöllum stjórnuðu samkomunni og Svavar Sigurjónsson sýndi gamlar og sögulegar myndir á stórum tjöldum. Margt var rifjað upp og mikið spjallað.
Kapparnir í Öræfahljómsveitinni Eygló komu úr Hafnarfirði, Fljótshlíðinni, Öræfum og Hornafirði til að leika fyrir dansi milli þess sem dragspilin voru þanin.
Myndir eru komnar inn á myndasafnið , ætlunin er að merkja þær á næstunni. 
img_3356b.jpg img_3393b.jpg

Hornafjarðarmanni

Að vanda tókst spilun Hornafjarðarmannans vel undir styrkri stjórn Sigurpáls Ingibergssonar.  Fimmtán manns hófu spilamennskuna á 5 borðum og lauk með því að Gyða, Karólína og Jón Hilmar spiluðu til úrslita. Fyrir þriðja sætið fékk Jón Hilmar Gunnarsson diskinn „Í safni með Síðumönnum“. Önnur verðlaun, bókina „Undir breðans fjöllum“ eftir Þorstein Jóhannsson frá Svínafelli hlaut Karólína Sveinsdóttir. Fyrstu verðlaun, Hornafjarðarhumar, komu í hlut Gyðu Valgerðar Kristinsdóttur. 
 
Aðrir spilarar
Ása Björk Sveinsdóttir
Björg Elín Pálsdóttir
Haraldur Stefánsson
Jóhanna G. Sigurðardóttir
Jón Bjarnason
Sigurjóna Björgvinsdóttir
Sólrún Hulda Pálsdóttir
Sveinn Sveinsson
Sveinn Frímannsson
Sædís Vigfúsdóttir
Valdís Þórarinsdóttir
Þórunn Gísladóttir
 
Myndir frá spilakvöldinu eru komnar inn á myndasafnið.

HornafjarðarMANNI

Hornafjarðarmanni

Efnt verður til spila­kvölds í Hornafjarðar­manna fimmtu­daginn 28. október 2009 
kl. 20:00 í Skaftfellingabúð undir styrkri stjórn Sigurpáls Ingibergssonar.  

Verðlaunin verða að vanda vegleg, Hornafjarðarhumar og fleira. 

Boðið verður upp á léttar veitingar í hléi. Aðgangseyrir kr. 1.000.

Fýlaveisla

Hin feikivinsæla fýlaveisla verður í Skaftfellingabúð
fyrsta vetrardag,
laugardaginn 23. október 2010 
og hefst með borðhaldi kl. 20. 
Húsið verður opnað upp úr kl. 19.
Að venju verður borinn fram saltaður fýll úr Mýrdalnum, veiddur og verkaður af Sigurjóni Rútssyni, með soðnum Þórisholtsrófum, kartöflum og öðru hefðbundnu meðlæti. Þá verður einnig boðið upp á hangikjöt.
Hljómsveitin Tónabræður frá Vík hleypir upp stuðinu að loknu borðhaldi og skipta með sér verkum við Víkarahljómsveitina Granít. 

Miðapantanir fyrir 21. október hjá
Hákoni (821 2115) og Helga (899 4818)

Aðgangur kr. 4.500

Athugið að síðast varð uppselt.
fyll-00.jpg