Skip to main content

Skaftfellingamessa

Skaftfellingamessa verður í Breiðholtskirkju sunnudaginn 20. mars 2011 og hefst klukkan 14:00.
Sr. Einar Jónsson sóknarprestur á Kálfafellsstað predikar, og auk hans þjóna fyrir altari prestar Breiðholtskirkju þau sr. Gísli Jónasson sóknarprestur og sr. Bryndís Malla Elídóttir auk sr. Fjalars Sigurjónssonar fv. prófasts á Kálfafellsstað.
Söngfélag Skaftfellinga syngur við messuna undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar.
Einsöngur Helena Marta Stefánsdóttir.

Að messu lokinni verður kaffisala
Söngfélagsins í safnaðarheimili kirkjunnar.
 
skaftmessa_2010.jpg

Metaðsókn að myndakvöldi hjá Skaftfellingafélaginu

Að vanda var góð aðsókn að myndasýningu félagsins þann 17. febrúar 2011, en hátt í 100 manns sáu bæði lifandi myndir og ljósmyndir frá ýmsum tímum. Sýningin hófst á kvikmyndum sem Þrándur Thoroddsen og Jón Hermannsson tóku 1974, fyrst frá vígslu kapellunnar á Klaustri sem sr. Sigurbjörn Einarsson biskup annaðist, síðan frá 17. júní hátíðarhöldunum á Kleifum við Kirkjubæjarklaustur. Þar var meðal annars leikinn með miklum tilþrifum þáttur um Una danska og voru í þeim leikþætti hestar, bardagar og dramatískir atburðir. Söngfélag Skaftfellinga söng, ræður fluttar og ýmislegt fleira til lista lagt. Þá var sýnt frá vígslu Skeiðarárbrúar 14. júlí 1974. Einnig voru sýndar myndir úr flugi yfir báðum sýslum. Að þessu loknu var sýnd nýrri mynd frá bænahúsinu á Núpstað, þar sem sr. Sigurjón á Klaustri sagði sögu bænahússins og ræddi lítillega við bræðurna á Núpstað, þá Filippus og Eyjólf. 
Var nú komið að hléi þar sem Inga Jóna reiddi fram sitt indæla kaffi og kruðerí.
Eftir kaffi voru sýndar myndir frá Ragnari Jónssyni frá Þykkvabæ, m.a. myndir frá hestamannamótum, vegagerð á Skeiðarársandi og slátrun á Klaustri auk annara mynda. Skúli Oddsson skýrði þessar myndir með miklum glæsibrag, enda sást hann tággrannur og síðhærður á þeim!! Að lokum voru sýndar myndir frá Núpsstað sem Svavar fékk lánaðar hjá Filippusi um páskana 2009. Jóna Hannesdóttir systir hans hjálpaði til við merkingar á þeim. Á þeim sást heimilisfólkið á Núpsstað og fleiri í starfi og leik, þessi myndir spönnuðu frá byrjun síðustu aldar og enduðu á 100 ára afmælisveislu Filippusar í desember 2009. 

„Senn bryddir á Barða"

Næsta fræðsluerindi Hins Íslenska Náttúrufræðifélags verður haldið mánudaginn 28. febrúar 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15. 

Það er Dr. Bergrún Arna Óladóttir, jarðfræðingur hjá Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, sem flytur erindi sem hún nefnir „Senn bryddir á Barða“ Stutt samantekt um Kötlu.
bergrunarna.jpg
 

Skógrækt - Myndasýning

Fimmtudaginn 10. mars. kl. 20:00 mun Guðjón Jónsson frá Fagurhólsmýri í Öræfum sýna myndir frá skógrækt í Öræfunum, en hann hefur haft veg og vanda af skógrækt á Fagurhólsmýri.  Einnig mun hann sýna nokkar myndir frá Skaftafelli og öðrum fallegum stöðum í Öræfunum.

Sýningin fer fram í Skaftfellingabúð, Laugavegi 178.  Aðgangur er ókeypis og áætlað er að sýning taki 1,5 klst.  

Skráning menningarminja í Öræfasveit

Um þessar mundir stendur yfir verkefni í Öræfum sem nefnist Skráning menningarminja í Öræfasveit. Að verkefninu standa Guðlaug M. Jakobsdóttir frá Skaftafelli og Halldóra Oddsdóttir á Hofi í Öræfum.
Margar ritaðar heimildir eru til um búskaparhætti og lífið í Öræfum og eru munir úr Öræfum í vörslu Byggðasafnsins á Höfn í Hornafirði. Mikið er þó til af munum sem  enn eru í eigu Öræfinga sjálfra sem mikilvægt er að skrásetja, taka af myndir og fá upplýsingar um frá fólki sem enn hefur einhverja þekkingu á uppruna þeirra og notagildi. Lögð verður áhersla á að skrásetja hluti sem búnir voru til í sveitinni, ýmis áhöld og verkfæri sem notuð voru í búskap,  matargerð, í sel- og lundaveiðar, fatnaður, hannyrðir og húsgögn.
 Aðstandendur verkefnisins hafa áhuga á að safna saman sem mestu af munnlegum og skriflegum heimildum um þá hluti sem til eru og sérstaklega endurminningar tengdar notkun þeirra og auglýsa hér með eftir slíkum heimildum frá brottfluttum Öræfingum eða sveitabörnum.  Endurminningar þurfa þó ekki að vera tengdar einstaka hlutum heldur eru allar frásagnir um líf og störf í Öræfunum á árum áður vel þegnar í skriflegu eða munnlegu formi.  
Verkefnið hóf göngu sína sumarið 2010 og hefur þó nokkuð hefur verið skrásett af hlutum frá Hæðum í Skaftafelli, Efri-bæ á Fagurhólsmýri, Hnappavöllum og vinna er hafin við skrásetningu á Kvískerjum. Það hefur fengið styrk frá hollvinasamtökunum Vinir Vatnajökuls en það er einnig unnið með stuðningi og ráðgjöf frá Byggðasafninu á Höfn, Skaftfellingafélaginu, Vatnajökulsþjóðgarði og ReykjavíkurAkademíunni. Að verkefni loknu er fyrirhugað að setja upp sýningu í Öræfunum afrakstri verkefnisins. 
Öll aðstoð við verkefnið er vel þegin hvort sem um er að ræða ábendingar um muni eða sögu þeirra. Guðlaug M. Jakobsdóttur, sími 6946919 og netfang gullyjak(hja)gmail.com  og halldóra Oddsdóttir, sími 8643067. Netfang gunnilh(hja)internet.is 
taska1.jpg
 

Myndakvöld

Fimmtudagskvöldið 17. febrúar 2011 kl. 20 í Skaftfellingabúð verður frumsýnd kvikmynd Þrándar Thoroddsen frá 1974 um þjóðhátíð Skaftfellinga að Kleifum, frá vígslu kapellu Jóns Steingrímssonar og vígslu Skeiðarárbrúarinnar 14. júlí 1974 þar sem meðal annars kór Skaftfellingafélagsins söng.  Kvikmynd þessi hafði lent í glatkistunni, en fannst fyrir skemmstu.  Síðan verður sýnt viðtal frá sjónvarpinu við þá bræður á Núpstað, Eyjólf og Filippus.  
Þá verða sýndar ljósmyndir frá Núpsstað auk fleiri áhugaverðra mynda gefist tími til. Aðgangur ókeypis. Seldar verða léttar veitingar í hléi.

 
nup-07-44b.jpg