Skip to main content

Sumarskálm 2011 um friðlandið í Aðalvík á Hornströndum

skalm_2001_aa.jpg
Átján skálmuðu um Aðalvík í Sléttuhreppi á Ströndum dagana 1.-5. júlí, en hópurinn fór í nokkrum bílum til Bolungarvíkur og gisti í Systrablokkinni þar nóttina fyrir brottför til Hornstranda. Aðalvíkin var fyrsta víkin sem við blasti þegar Sædís ÍS sigldi austur fyrir Grænuhlíðina út úr Ísafjarðardjúpi. Lent var í fjörunni við Sæból þar sem gestgjafarnir biðu okkar, hjónin Jónína Vala Kristinsdóttir og Gylfi Kristinsson en hópurinn dvaldi hjá þeim í góðu yfirlæti í sumarhúsi sem þau hafa aðgang að, en nokkrir tjölduðu við húsið. Daginn eftir var frábært veður og ákveðið að ráðast í langferð yfir að Látrum og á Straumnesfjall. Lagt var af stað klukkan níu að morgni eftir staðgóðan morgunverð og djúga nestisgerð. Á leiðinni þarf að gæta sjávarfalla sem var ekki til baga á leiðinni að Látrum. Ekki langt frá Sæbóli þurfti að síga niður Tökin svokölluðu í Hvarfnúpnum, en þar þarf koma sér niður allmikið klettabelti með aðstoð keðju og reipis nokkra tugi metra. Gengið var síðan um stórgrýtta fjöru undir Hyrningsgötu yfir í Miðvík og haldið áfram yfir Stakkadalsós, gengið áfram í gullnum fjörusandi allt að Látrum um 15 km leið. Áð var með reglulegu millibili og dáðst að umhverfinu. Þá var gengið upp veginn á Straumnesfjall, en þaðan er mikið útsýni inn í Jökulfirði og Djúp. Skoðaðar voru leyfar af bandarískri ratsjárstöð uppi á háfjallinu. Á bakaleiðinni var okkur boðið í kaffi á Látrum og haldið yfir að Sæbóli á ný eftir kærkomna hvíld. Þá kom í ljós að ósinn var ófær vegna stórstreymis, en ákveðið var að bíða þar til fjaraði út. Á endanum var krækt fyrir ósinn og farið á ágætu vaði yfir Stakkadalsána við Stakkadal. Komið var fyrir Mannafjall inn í Miðvík á ný um miðnættið. Þá átti eftir að lyfta sér upp Tökin aftur eða síga niður í Posavoginn, vaða hann og strunsa í Hjálmfríðarból þeirra Jónínu og Gylfa. Allir völdu Posavoginn nema Kjartan sem hífði sig upp en þar sem þá var byrjað að rigna var mjög erfitt að klífa upp. Vel gekk að fara Posavoginn og það voru þreyttir en sælir göngugarpar sem gerðu kærkomnum kvöldverði matarnefndarinnar skil, með dýrindis eftirrétti. Allir glaðir og alsælir eftir 18 tíma útiveru og 40 km göngu. 
Næsta dag slökuðu Skálmarar á fram yfir hádegi, en þá tóku menn léttan göngutúr um byggðina á Sæbóli og nutu leiðsagnar Jónínu sem þekkir sögu staðarins vel.  Um köldið var grillað lambalæri af bestu gerð með gómsætu meðlæti og auðvitað dásamlegum eftirrétti, en matarnefndin hafði svo sannarlega undirbúið ljúffengar kvöldmáltíðir allan tímann. Á meðan Skálmarar dvöldu í Aðalvík tóku liðtækar konur og karlar í hópnum til hendinni við ýmis verk á Sæbóli og inni á Stað sem er kirkjustaður og Áttahagafélag Sléttuhrepps sér um að halda þar við húsi og kirkju. Við Hjálmfríðarból var settur fleki til verndar vatnsbólinu sem þurfti að fergja og á Stað var gengið frá drenlögn við rotþró og var allur hópurinn nýttur í frágang. Þótti þeim Sæbólsbændum mikið til koma verkvit og kraftur Brodda Hilmarssonar sem fékk viðurnefnið „hvalreki“. 
Næst síðasta göngudaginn var gengið frá Sæbóli inn að Stað og þaðan sem leið liggur upp á Lækjarfjallið og fram á Darrann að leyfum ratsjárstöðvar sem Bretar voru með í seinni heimstyrjöldinni. Síðasta daginn var síðan gengið að Hesteyri þar sem hópurinn gæddi sér á kaffi og pönnukökum við Læknishúsið. Þangað náði bátur frá Vesturferðum í hópinn og skilaði honum í land í Bolungarvík. Þar hvíldu flestir lúin bein í heitu pottunum í sundlauginni og gerðu sig klára fyrir síðustu kvöldmáltíðna í Tjöruhúsinu á Ísafirði, en enginn var svikinn af dýrindis fiskihlaðborði sem staðurinn er víðfrægur fyrir. Loks var haldið til Bolungarvíkur þar sem slegið var upp gleðskap í Systrablokkinni fram á nótt. Daginn eftir héldu menn heim á leið, sælir eftir ógleymanlega ferð á Vestfirði og um friðlandið í Aðalvík.
skalm_2001_ea.jpgskalm_2001_ca.jpgskalm_2001_da.jpgskalm_2001_fa.jpg