Skip to main content

Fjölmenn Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju 20. mars 2011

Á útmánuðum hefur skapast sú hefð hjá Skaftfellingafélaginu að halda Skaftfellingamessu í Breiðholtskirkju, en fyrsta messan var haldin 19. mars 2006. Frumkvæði að þessari góðu hefð eiga Skúli Oddsson formaður félagsins og sr. Gísli Jónasson sóknarprestur Breiðholtskirkju en hann var fyrr á árum prestur í Vík. Fjölmenni var að vanda í messunni. Séra Einar Jónsson sóknarprestur á Kálfafellsstað predikaði en hann er um þessar mundir að láta af störfum fyrir aldurs sakir. Séra Gísli og séra Bryndís Malla Elídóttir, áður prestur á Kirkjubæjarklaustri, þjónuðu fyrir altari ásamt séra Fjalari Sigurjónssyni fv. prófasti á Kálfafellsstað. Söngfélag Skaftfellinga söng við messuna undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar. Eftir predikun söng Helena Marta Stefánssdóttir svo undurfagurt „Heyr mína bæn“, lag Nicola Salerno við texta Ólafs Gauks.

Að messu lokinni stóð Söngfélag Skaftfellinga fyrir kaffisölu í safnaðarheimili kirkjunar. Þar svignuðu borð af gómsætum kræsingum við allra hæfi. Kórinn flutti nokkur lög og var gerður góður rómur af söngnum. Þess má vænta að Skaftfellingamessan verði áfram fastur liður í vetrardagskránni hjá fjölmörgum sem eiga ættir að rekja í Skaftafellssýslur þar sem fólk getur að lokinni messu notið samvista í sannkölluðu veislukaffi og kórsöng.

skaftkor-2011.jpg

 

 Myndir eru komnar inn á Myndasafnið.