Skip to main content

Metaðsókn að myndakvöldi hjá Skaftfellingafélaginu

Að vanda var góð aðsókn að myndasýningu félagsins þann 17. febrúar 2011, en hátt í 100 manns sáu bæði lifandi myndir og ljósmyndir frá ýmsum tímum. Sýningin hófst á kvikmyndum sem Þrándur Thoroddsen og Jón Hermannsson tóku 1974, fyrst frá vígslu kapellunnar á Klaustri sem sr. Sigurbjörn Einarsson biskup annaðist, síðan frá 17. júní hátíðarhöldunum á Kleifum við Kirkjubæjarklaustur. Þar var meðal annars leikinn með miklum tilþrifum þáttur um Una danska og voru í þeim leikþætti hestar, bardagar og dramatískir atburðir. Söngfélag Skaftfellinga söng, ræður fluttar og ýmislegt fleira til lista lagt. Þá var sýnt frá vígslu Skeiðarárbrúar 14. júlí 1974. Einnig voru sýndar myndir úr flugi yfir báðum sýslum. Að þessu loknu var sýnd nýrri mynd frá bænahúsinu á Núpstað, þar sem sr. Sigurjón á Klaustri sagði sögu bænahússins og ræddi lítillega við bræðurna á Núpstað, þá Filippus og Eyjólf. 
Var nú komið að hléi þar sem Inga Jóna reiddi fram sitt indæla kaffi og kruðerí.
Eftir kaffi voru sýndar myndir frá Ragnari Jónssyni frá Þykkvabæ, m.a. myndir frá hestamannamótum, vegagerð á Skeiðarársandi og slátrun á Klaustri auk annara mynda. Skúli Oddsson skýrði þessar myndir með miklum glæsibrag, enda sást hann tággrannur og síðhærður á þeim!! Að lokum voru sýndar myndir frá Núpsstað sem Svavar fékk lánaðar hjá Filippusi um páskana 2009. Jóna Hannesdóttir systir hans hjálpaði til við merkingar á þeim. Á þeim sást heimilisfólkið á Núpsstað og fleiri í starfi og leik, þessi myndir spönnuðu frá byrjun síðustu aldar og enduðu á 100 ára afmælisveislu Filippusar í desember 2009.