Skip to main content

Skráning menningarminja í Öræfasveit

Um þessar mundir stendur yfir verkefni í Öræfum sem nefnist Skráning menningarminja í Öræfasveit. Að verkefninu standa Guðlaug M. Jakobsdóttir frá Skaftafelli og Halldóra Oddsdóttir á Hofi í Öræfum.
Margar ritaðar heimildir eru til um búskaparhætti og lífið í Öræfum og eru munir úr Öræfum í vörslu Byggðasafnsins á Höfn í Hornafirði. Mikið er þó til af munum sem  enn eru í eigu Öræfinga sjálfra sem mikilvægt er að skrásetja, taka af myndir og fá upplýsingar um frá fólki sem enn hefur einhverja þekkingu á uppruna þeirra og notagildi. Lögð verður áhersla á að skrásetja hluti sem búnir voru til í sveitinni, ýmis áhöld og verkfæri sem notuð voru í búskap,  matargerð, í sel- og lundaveiðar, fatnaður, hannyrðir og húsgögn.
 Aðstandendur verkefnisins hafa áhuga á að safna saman sem mestu af munnlegum og skriflegum heimildum um þá hluti sem til eru og sérstaklega endurminningar tengdar notkun þeirra og auglýsa hér með eftir slíkum heimildum frá brottfluttum Öræfingum eða sveitabörnum.  Endurminningar þurfa þó ekki að vera tengdar einstaka hlutum heldur eru allar frásagnir um líf og störf í Öræfunum á árum áður vel þegnar í skriflegu eða munnlegu formi.  
Verkefnið hóf göngu sína sumarið 2010 og hefur þó nokkuð hefur verið skrásett af hlutum frá Hæðum í Skaftafelli, Efri-bæ á Fagurhólsmýri, Hnappavöllum og vinna er hafin við skrásetningu á Kvískerjum. Það hefur fengið styrk frá hollvinasamtökunum Vinir Vatnajökuls en það er einnig unnið með stuðningi og ráðgjöf frá Byggðasafninu á Höfn, Skaftfellingafélaginu, Vatnajökulsþjóðgarði og ReykjavíkurAkademíunni. Að verkefni loknu er fyrirhugað að setja upp sýningu í Öræfunum afrakstri verkefnisins. 
Öll aðstoð við verkefnið er vel þegin hvort sem um er að ræða ábendingar um muni eða sögu þeirra. Guðlaug M. Jakobsdóttur, sími 6946919 og netfang gullyjak(hja)gmail.com  og halldóra Oddsdóttir, sími 8643067. Netfang gunnilh(hja)internet.is 
taska1.jpg