Skip to main content

Vel lukkað hagyrðingamót

Sjaldan hefur verið hlegið hærra og meira í Skaftfellingabúð en kvöldið 18. nóvember þegar  fimm hagyrðingar fóru þar með sinn hnyttna kveðskap. Þetta voru Vestur-Skaftfellingarnir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir á Ljótarstöðum og Reynir Ragnarsson í Vík og Austur-Skaftfellingarnir Halldór Þorsteinsson frá Svínafelli og Torfhildur Torfadóttir á Gerði. Ómar Ragnarsson sem einnig á rætur að rekja í Skaftafellssýslur stjórnaði hópnum og lagði fram drjúgan skerf af skemmtiefni. 
Skáldin kynntu sig í bundnu máli og brugðu líka upp myndum af hinum þátttakendunum, rifjuðu upp gömul kynni og reyndu að stofna til nýrra.  Halldór var að hitta Heiðu í fyrsta skipti þennan dag og fékk mikið klapp í salnum er hann orti svo til hennar: 
Heiða, lítt um hagi þína
háttalag og siði veit.
Inn í líf þitt reyni að rýna,
ég reyndar veit þú býrð í sveit. 

Heiða, þú ert laus og liðug,
líkt er ástatt fyrir mér.
Ég á hugmynd, hún er sniðug
að heim á óðal fylgi þér.

„Nú, þetta ætlar að hafa afleiðingar,“ sagði stjórnandinn Ómar og tók eitt af sínum frægu bakföllum. 

Tolla orti til Halldórs:

Sjáið vinir segginn þann
sem mitt hlýtur lofið.
Hjá skáldgyðjunni hefur hann
held ég alltaf sofið.

Meðal yrkisefna voru Skaftafellssýslurnar og munurinn á þeirri eystri og vestri og íbúum þeirra. Heiða rakti muninn aftur til sköpunarinnar og taldi almættið hafa komið úr vestri og haldið til austurs eins og þurrkinn.

Fullkomið hreint allt hjá honum
frá hæstu fjöllum í djúp
svo var göslið algert á onum
austan við Lómagnúp.

Reynir setti alla sýslubúa undir einn hatt er hann orti: 

Skýrt er sagt um Skaftfellinga
þeir skoði vel sitt orðaval
til loforða ei létt að þvinga
en lofi þeir – það standa skal.

Eftir um tveggja tíma frábæra dagskrá með góðu kaffihléi tóku Kristinn Kjartansson og Stefán Bjarnason upp dragspilin og fylltu salinn ljúfum tónum meðan gestir bættu á sig kökum og aðrir kíktu á barinn.  
Myndir eru komnar inn á myndasafnið. 
img_3654b.jpg 
img_3655b.jpg