Skip to main content

Öræfaball 2010

Ball í fundarhúsinu
Fyrrum sumardvalarbörn í Öræfum, ásamt öðrum sem þar eiga og áttu heima, gerðu sér glaðan dag í Skaftfellingabúð laugardagskvöldið 6. nóvember. Þetta var í annað sinn sem haldið er slíkt „Ball í fundarhúsinu“. Hitt var fyrir réttu ári. Þátttaka var minni nú en í fyrra en sumir komu langt að, allt frá Hornafirði og Patreksfirði. Þeir sem mættu áttu ánægjulega kvöldstund með sögum, söng, veitingum og að sjálfsögðu balli.  Sagnafólkið átti það flest sammerkt að hafa verið sent í sveitina á síðustu öld, ungt að árum, til að taka þar þátt í daglegu lífi. Allt átti það sterkar minningar frá þeim tíma en bjart var yfir þeim flestum.
Guðbjartur Sigurðsson var á Kvískerjum og lýsti skemmtilega ýmsum tækniundrum sem útbúin voru þar. Hann var sex sumur í sveitinni og sá aðeins einn mann drukkinn.
 Ingibjörg Gréta Gísladóttir iðkaði hannyrðir á Hofsnesi og lærði að umgangast stráka með lagni. En eftir einn rúningsdag var loðni, svarti hundurinn hans Péturs ekki loðinn lengur.
Vestmannaeyingurinn Bogi var í Hofskoti og rifjaði upp rekstur sauða í Breiðamerkurfjall laust eftir 1940, rétt eins og gerst hefði í gær, ásamt gerð skinnskóa og öðrum undirbúningi undir ferðina.
Björgvin Schram var sex ára þegar hann kom fyrst að Litla-Hofi um 1950 og var með bullandi heimþrá fyrstu dagana. Honum var ráðlagt að skrifa mömmu sinni til að segja henni að hann væri væntanlegur heim en áður en bréfið var tilbúið hafði hann fest yndi. 
Sigurður Vilberg Sigurjónsson lærði margan vísdóm í Austurbænum í Svínafelli meðal annars að setja skýjafar yfir Súlnatindum í samhengi við veðurspádóma. 
Á milli hins talaða orðs ómaði salurinn af söng og hljóðfæraleik, bæði frá brottfluttum Öræfingum sem æft höfðu nokkur lög og almennings sem tók hressilega undir þegar við átti.  
Þorsteinn Jakobsson frá Skaftafelli og Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Hnappavöllum stjórnuðu samkomunni og Svavar Sigurjónsson sýndi gamlar og sögulegar myndir á stórum tjöldum. Margt var rifjað upp og mikið spjallað.
Kapparnir í Öræfahljómsveitinni Eygló komu úr Hafnarfirði, Fljótshlíðinni, Öræfum og Hornafirði til að leika fyrir dansi milli þess sem dragspilin voru þanin.
Myndir eru komnar inn á myndasafnið , ætlunin er að merkja þær á næstunni. 
img_3356b.jpg img_3393b.jpg