Skaftfellingafélagið í Reykjavík

Á uppstigningardag þann 13. maí síðastliðinn hélt Söngfélag Skaftfellinga tónleika á Kirkjubæjarklaustri ásamt sænskum kór, Östergök frá Lundi í Svíþjóð.  Að venju voru dvalarheimilin Klausturhólar á Kirkjubæjarklaustri og Hjallatún í Vík í Mýrdal heimsótt í þessari austurferð Söngfélags Skaftfellinga og  sungin nokkur lög fyrir heimilisfólkið. 
Þessi austurferð kóranna verður ógleymanleg öllum kórfélögum sem í ferðina fóru. Tilkomumikið gos í Eyjafjallajökli sást vel strax austur á Kambabrún. Veðrið skartaði sínu fegursta, heiðskírt og gott útsýni. Stoppað var m.a. fyrir framan stórbýlið Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum en þaðan sást vel til gossins í jöklinum. Keyrt var í gegnum öskufall um tíma og á köflum var töluverð aska á þjóðveginum. Þessar hrikalegu aðstæður höfðu mikil áhrif á Svíana og létu  engan ósnortinn sem upplifði þetta sjónarspil náttúrunnar.
Á uppstigninardaginn var farið snemma austur í Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Enn var tilkomumikil íslensk náttúra í aðalhlutverki og óhætt er að segja að hún hafi skartað sínu stórbrotnasta og ægifegursta. Nægir í því sambandi að nefna Lómagnúp, Eldhraunið mikla, Skaftafell, Hvannadalshnúk og síðast en ekki síst Jökulsárlónið sjálft. Þeir sem voru með Svíunum í rútu heyrðu sem eitt andvarp allra þrjátíu gestanna þegar lónið birtist sjónum. Eftir að áð hafði verið við Jökulsárlónið var haldið aftur á Krikjubjærarklaustur þar sem sameiginlegir tónleikar kóranna hófust klukkan fjögur. 
Sænski kórinn Östergök söng ýmis lög bæði á sænsku og ensku sem tengdust ákveðnum söguþráði í kringum lífshlaup fólks allt frá því það fer að heiman, hefur búskap og tekst á við ýmis veraldleg dægurmál tengd sambúð, fjármálum, áhugamálum svo nokkuð sé nefnt. Samhliða söng var kórinn með leikin atriði til þess að koma túlkun sinni um þema lagavalsins á framfæri.  
Söngfélag Skaftfellinga var einnig með breitt  lagaval ásamt hefðbundnum flutningi sönglaga tengdum Skaftafellssýslum. Í lokin sungu kórarnir nokkur lög saman og var vel tekið af áheyrendum.  
Um kvöldið héldu kórarnir til sameiginlegs kvöldverðar þar sem kórfélagar borðuðu, sungu og dönsuðu fram eftir nóttu við ljúfan undirleik píanó- og harmóníkuleikara. Sænsku gestirnir buðu við þetta tækifæri félögum í Söngfélagi Skaftfellinga að koma við fyrsta  tækifæri í heimsókn til Lundar í Svíþjóð. 
Næsta dag var haldið af stað aftur til Reykjavíkur með viðkomu á dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík í Mýrdal þar sem sungin voru nokkur lög fyrir vistmenn. Að lokum var farið í heimsókn í sumarhús þeirra bræðra og kórfélaga Kjartans, Kristins og Sigurgeirs Kjartanssona frá Þórisholti, að Djúpaleiti í Reynishverfi í Mýrdal. Þar var boðið var upp á veitngar og sænsku gestirnir voru kvaddir með áheitum um endurfundi fyrr en síðar.   
Sveinn Hjörtur Hjartarson ritaði.

Heimilsfang

Starfsemi félagsins fer fram í Breiðfirðingabúð Faxafeni 14.

Póst til Skaftfellingafélagsins, Söngfélags og Kvikmyndasjóðs skal senda á:

Pósthólf 9105

129.Reykjavík

Auglýsingar

heidmork

 

songfelagid

 

skalm

 

kvikmyndaklubbur

 

ftspor fors

 dynskogar