Skaftfellingafélagið í Reykjavík

Söngfélag Skaftfellinga er með æfingar á þriðjudagskvöldum kl. 20.00 í vetur. Stjórnandi er Friðrik Vignir Stefánsson.
Nýir félagar eru velkomnir í allar raddir. Opið hús er á þriðjudagskvöldum og er söngfólk hvatt til að koma í heimsókn, fá sér kaffisopa og kynna sér starfsemi Söngfélagsins.

 

Söngfélag Skaftfellinga er blandaður fjórradda kór og eru söngfélagar ættaðir víðsvegar að af landinu, þótt flestir eigi ættir að rekja úr Skaftafellssýslum. Fjöldi söngfélaga er tæplega 40.

 

Áhugasamir eru eindregið hvattir til þátttöku.
Upplýsingar gefur stjórn Söngfélags Skaftfellinga:

Messa 2012

Sveinn Hjörtur Hjartarson s. 554 6177 og 824 2309
Kristjana Rósmundsdóttir s. 553 9807 og 864 0684
Sigurlaug J Sigurðardóttir s. 588 7273 og 891 7354
Helga Lilja Pálsdóttir s. 478 1706 og 618 5706
Gísli Þórörn Júlíusson s. 553 28087.
Þórunn Jónasdóttir s. 554 3429 og 694 7127

Heidmork 2010

Hér er nýtt fréttabréf.
Ákveðið hefur verið að færa sautjánda júní-hátíðahöldin í Öræfum fram um einn dag þetta árið, til laugardagsins 16. júní. Þau verða líka með fjölmennasta móti í ár því burtflognum sveitungum og sumardvalarbörnum býðst að slást í hóp heimafólks. Stefnt er að útisamkomu um miðjan daginn í Svínafelli og samverustund í Hofgarði undir kvöldið. Þannig verður um átthaga– og vinamót að ræða í bland við þetta hefðbundna.  Þeir sem mæta snemma dags í sveitina geta spókað sig á bæjarhlöðunum fyrir hádegi og kannski rifjað upp gamlar kúasmalaslóðir.  Það skal tekið fram að gestir verða sjálfir að sjá sér fyrir gistingu. 
Sumarganga gönguhópsins Skálms í Aðalvík 2011
 

Nú kom að því að gönguhópurinn Skálm ákvað að láta verða af því að skálmast um á Vestfjörðum frá 1.júlí – 5.júlí 2011 og hafist var handa við að skipuleggja ferðina og göngudagana. Gönguhópnum var boðin gistiaðstaða í Hjálmfríðarbóli sem er sumarhús í landi Sæbóls í Aðalvík og Jónína Vala Kristinsdóttir lektor við HÍ og  eiginmaður hennar Gylfi Kristinsson hafa afnot af og voru þau svo elskuleg að vera með gönguhópnum þessa daga. Það voru 18 manns sem skráðu sig og voru klárir í gönguferðina.  Það hafði líka verið ákveðið  að hafa að þessu sinni matarnefnd sem hefði umsjón með kvöld- og morgunverðum og óskað var eftir sjálfboðaliðum í það verkefni. Það lét ekki á sér standa og 4 valkyrjur, þær Steinunn Jónsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Sigríður Baldursdóttir og Helga Alfreðsdóttir gáfu sig fram í kokkaverkefnið og umsjón með matarinnkaupum. Átti það svo sannarlega eftir að koma í ljós þvílík snilldarhugmynd það var að hafa matarnefnd.

Lagt var upp í ferðina þann 30. júní, fólk sameinaðist í bíla og veðrið sveik okkur ekki þrátt fyrir kuldaspár. Sumir höfðu hugsað sér að gefa sér tíma í ökuferðina til Bolungarvíkur og lögðu snemma af stað til að skoða sig um á hinum ýmsu stöðum sem urðu á leiðinni því ekki höfðu allir komið á þennan kjálka Íslands eða þá ferðast á þessu svæði fyrir löngu síðan. Það var búið að panta gistingu í systrablokkinni svokölluðu í Bolungarvík fyrir okkur, sem Soffía Vagnsdóttir og fjölskylda eiga og reka. Við fengum heilan stigagang fyrir okkur og við röðuðum okkur niður í íbúðirnar. Um kvöldið brunuðum við á bílum upp á Bolafjall í útsýnis- og sólsetursskoðun. Bolafjall er 638 metra hátt og þar er ein af fjórum ratsjárstöðvum sem Ratsjárstofnun rak fyrir hönd varnarliðsins. Soffía og föruneyti kom og heilsaði upp á hópinn í blokkina um kvöldið og athugaði að allt væri örugglega í lagi og að vel færi um okkur. Aldeilis frábært framtak að hafa íbúðir í blokk fyrir ferðaþjónustu og æðislegt að dvelja þar. 
Um hádegisbil daginn eftir var tekið til við að gera sig klára í bátsferðina yfir í Sæból í Aðalvík. Matar-og fatabirgðum var komið fagmannlega niður í lestir bátsins hjá Vesturferðum og svo var siglt af stað, tilhlökkun var alger að takast á við göngur næstu daga. Aðalvík er um 7 km breið vík vestast á Hornstrandakjálkanum og þar voru áður sjávarþorpin Látrar, íbúar  þar voru um 120 árið 1920 og á Sæbóli voru um 80 íbúar árið 1900, en byggðin fór í eyði um miðja 20. öld. Húsunum í Sæbóli og einnig á Látrum er haldið við af eigendum og er þar eingöngu sumarbyggð.  
Ferja þurfti okkur og farangur á gúmmíbát yfir í fjöruna í Aðalvík því engin bryggja er til staðar og þar tóku á móti okkur Jónína og Gylfi gestgjafar okkar. Farangurinn var síðan fluttur á 6 hjóla farartæki heim í Hjálmfríðarból.
Sumir voru með tjöld og byrjuðu á að finna sér tjaldstæði til að tjalda, hinir að koma sér fyrir inni í húsi „Hjálmfríðarbóli“ og allt leit þetta mjög vel út.  Um  kvöldið var tekin kvöldganga m.a. skoðaður skólinn sem var byggður 1933 en eftir að byggðin lagðist niður var hann notaður sem slysavarnarskýli en átthagafélög hafa nú forræði yfir skólanum. Einnig var gengið inn að prestsetrinu að Stað í Staðardal og kirkjan skoðuð. Við bæinn er Staðarvatn sem er grunnt stöðuvatn og í því er silungsveiði. Fjórir veiðimenn úr gönguhópnum fóru í veiðitúr og 3 fiskar náðust á land, veiðimenn voru aldeilis roggnir með fenginn sem var grillaður um kvöldið. Fiskfengurinn bragðaðist með eindæmum vel ásamt pastanu og dýrindis eftrréttinum sem matarnefndin hafði matbúið fyrir gönguhópinn um kvöldið. Já matarnefndin fær margar stjörnur fyrir matardekrið – eftirréttir pæliðiíðí!  En allir voru duglegir og tóku til hendinni til að létta undir í frágangi og hjálpa til.
Um nóttina var æði kalt allavega klæddi söguritari, sem svaf í tjaldi, sig í auka ullarsokka. En kvöldin og næturnar geta verið köld á þessum slóðum. Lágfóta læddist um og hnusaði af gestadótinu, það er alltaf spennandi og forvitnilegt þegar koma gestir. Það er oft talað um að dýr merki sér svæði með því að pissa.......já það er kannski best að tala ekki um það. 
Dagur 1
Fyrsta göngudaginn var stefnan tekin á Straumnesfjall (435) og allir fullir tilhlökkunar.  Eftir að búið var að borða hafragraut og annað meðlæti í morgunmat útbjuggu göngugarpar sér gott dagnesti. Skýjahula lá yfir fjallinu þennan morgun en við vonuðum auðvitað að hún yrði farin þegar liði á daginn. Ákveðið var að fara niður svökölluð Tök í Hvarfnúpi og þurfti að klifra niður 30-40 metra hátt klettabelti í keðju og kaðli, reyndi nú heldur betur á grip í höndum göngufólks að halda sér í keðjuna við að fóta sig niður.  Þrír göngugarpar voru staðsettir þannig að þeir gátu leiðbeint þeim sem fóru niður hvar best væri að fara. Þar sem við vorum 18 manns í ferðinni þá tók þetta dágóðan tíma því það fór bara einn í einu niður keðjuna og fólk í misgóðri æfingu til að vera í svona klettaklifri. Gengið var áður fyrr Hyrningsgötu sem er nú löngu hrunin og sagt er að um 20 manns hafi farist í þessari götu, en Posavogur er sagður draga nafn af því að eitt sinn er maður flutti þar barn til skírnar að Stað þá losnaði posinn sem hann bar barnið í og það féll í sjóinn.  Ekki er hægt að fara Posavoginn nema á háfjöru.
Þegar allir voru komnir niður á klappirnar fyrir neðan, tók við ganga um grýtta fjöru undir hlíðum Hvarfnúpsins og var miserfitt yfirferðar þar sem sums staðar var stórgrýtt og sumir steinarnir lausir. En þegar þessi partur ferðarinnar var búinn um grýtt fjöru- og berggrjótið var tekin góð kaffi- og nestispása í Miðvík í frábæru veðri sem ætlaði ekki að svíkja okkur frekar en í öðrum göngum okkar Skálmara. Þegar haldið var aftur af stað þá var stutt í að við þyrftum að fara úr skófatnaði og vaða yfir Miðvíkurós og Stakkadalsós. Allir voru fegnir því að geta bleytt og kælt tærnar. Eftir það þá gengum við berfætt í gylltum fjörusandinum  og það var alveg á hreinu að allt gamalt sigg og líkþorn hurfu við þetta góða skeljasandsnudd undir iljunum á okkur. Þegar við stoppuðum í fjörunni við Látra, gátum við eiginlega ekki fengið nóg af því að vera þar, sólin skein og ekki ský á lofti. Fólk lagðist í sandinn í sólbað, sullaði í sjónum, fékk sér matarsnarl og fíflagangurinn var auðvitað til staðar. Það var eins og við værum í útlöndum, þetta var bara „geðveikt“, mæli með að settur verði upp fjörubar á þessum stað. Þrátt fyrir að við vildum nú vera þarna í fjörunni  lengur þá var haldið áfram á Straumnesfjallið eftir vegi sem sem var lagður upp fjallið eftir stofnun varnarliðsins á Íslandi 1951. Sumir fóru reyndar beint upp eða svo að segja, og þá aðallega til að vera í „erobiki“ og reyna á sig eftir fjörulabbið.  Útsýnið var mikið inn í Jökulfirði þegar upp var komið og einnig yfir að Sæbóli, Darra og Rytur svo eitthvað sé nefnt en það var eins og útsýnið væri endalaust af þessum sjónarhóli. Á Straumnesfjalli má enn sjá minjar um ratsjárstöð Bandaríkjahers, sem var þar fram yfir 1960. Dulúðleg skýjaþoka var í kringum húsarústirnar þar sem við stoppuðum til að skoða þessar gömlu minjar hersins og gerði svæðið svolítið draugalegt. Hvernig skyldi hermönnunum hafa liðið þarna uppi, ekkert að sjá nema fjöll, firði og sjó, svo ekki sé talað um þessa fjallaþoku sem eflaust hefur gert þeim lífið leitt og engin byggð á svæðinu. Þessum þankagangi getum við ekki svarað en allskonar sögusagnir eru þó til um veru þeirra sem ekki verður útkljáð hér. Í bakaleiðinni var okkur boðið upp á kaffi á Látrum og það var mjög gott að fá heitt kaffi svona áður en haldið var áfram því það var komið kvöld og farið að kólna, það var líka drjúgur spölur eftir til baka að Sæbóli.  Þegar við ætluðum að fara yfir Stakkadalsósinn sem við trítluðum eiginlega yfir í vatni upp að hnjám fyrr um daginn þá var komið háflóð núna. Já við sveitalubbarnir höfðum ekki hugsað um háflóð og fjöru „hvaðernúþað“ auðvitað áttum við að passa þetta atriði. Jæja það var ekkert annað í stöðunni en að bíða og sjá hvort það fjaraði ekki út bráðlega.  Mötrungusystur Adda og Jóna ákváðu að athuga hvort þær fyndu grynnra vað ofar og lögðu af stað í leiðangur. Það var langt liðið á kvöld og allir orðnir frekar lúnir eftir göngu dagsins, við tókum okkur því góða hvíldarstund, sumir tóku sér lúr á sandmelnum meðan við biðum. Ég öfunda fólk sem getur lagst niður svona nokkurn veginn hvar sem er og sofnað þó ekki sé nema í nokkar mínútur, það er nú hægt að eflast heilmikið við það. Af og til var athugað hvort ekki sæist til systranna, en ekkert bólaði á þeim enn sem komið var. Broddi og Guðni könnuðu ástandið á vaðinu en það ætlaði að verða einhver bið á að við gætum farið þar yfir. Við höfðum ekki áhuga á að vaða uppundir hendur og einhver var sandbleytan líka sem við treystum ekki á í svona dýpi. Nú kvað við hávaði sem raskaði ró okkar sem lágum makindalega á sandmelnum og hálfsváfum. Þegar þetta var kannað nánar sást til systranna sem voru komnar hinum megin á bakkann voru að kalla „eitthvað“ til okkar.  Þegar svo mikill hávaði heyrist frá Mörtungusystrum þá er nú vissara að sperra eyrun og hlusta.  Við reyndum að hlusta en heyrðum bara í fyrstu hávaðaróminn en vindurinn feykti orðunum til fjalla – kannski sem betur fer – örugglega ekki prenthæft það sem fyrst var látið fjúka.  En svo skildist okkur að það væri hægt að vaða yfir nokkru ofar hjá gömlu húsi og þar væri ekki djúpt. Við ákváðum að bíða ekki  frekar og skálmuðum af stað eftir ábendingnum systranna, fundum vaðið og auðvitað ekkert mál að fara yfir. Lágfóta fylgdist með okkur í fjarlægð og var örugglega steinhissa yfir þessu háflóða brölti í gönguhópnum. Okkur var nú alveg sama um það því alltaf þurfa að vera örlítil ævintýri í hverri ferð til að krydda frásagnirnar. Gengum við nú aftur um grýttu fjöruna undir hlíðum Hvarfnúps og nú skyldi Posavogurinn farinn og sem betur fer var fjara þegar við komum þangað. Nú var farið að rigna smá og steinarnir orðnir blautir og sleipir því var vissara að passa sig þegar við fórum niður keðjuna í Posavoginum. Einn göngugarpurinn hafði þó farið upp aftur þar sem við fórum áður niður um daginn, en það var orðið sleipt og ekki ráðlegt að fleiri færu þar upp. Það er ekki orðum aukið að það var þreyttur hópur sem kom um kl.2.30 að nóttu til í hús eftir 18 tíma göngudag og 40 km vegalengd. Já ef svona dagar eru ekki ævintýradagar þá veit ég ekki hvað ævintýri eru.  
Dagur 2
Næsta dag var slakað á fram undir hádegi og það mátti vel finna strengi í fótum eftir göngu gærdagsins þannig að það var kærkomið að fara rólega þennan dag. Leiðangur var síðan tekinn um Sæból og það var gott að fara svona léttan göngutúr um byggðina með leiðsögn Jónínu sem þekkir sögu svæðisins vel.  Þarna eru þó nokkur hús og eru sum nýuppgerð og vel haldið við af eigendum og fá að halda upprunalegu útliti sem gerir þau svo falleg. Ennþá halda þau nöfnum sínum, m.a. Bólið, Steinhús, Yztibær, Garðar. Gengið var síðan meðfram fjörunni inn að klettabás sem heitir Kirfi og var mikið spekúlerað hvaða meiningu nafnið „Kirfi“ hefði á þessum stað en engin niðurstaða komst í málið. Eftir þennan frábæra göngutúr bauð Jónína upp á fjallagrasamjólk og Ólöf framreiddi „hvannarrótar-snakk“ nóg var nú af hvönninni á svæðinu og bragðaðist þetta snakk mjög vel.  Góður og rólegur dagur á enda sem hjálpaði okkur við að losa um stirðleikann og strengina sem höfðu verið um morguninn.  Um kvöldið var grillað lambalæri með tilheyrandi meðlæti og auðvitað eftrirréttur.... nema hvað. Eftir það var söngur kyrjaður með Jónínu og nokkrum söngfuglum Söngfélagsins og allskonar gestaþrautir settar á svið fram eftir kvöldi, gleði, grín og vitleysa eins og á að vera í svona ferðum.  
Dagur 3
Að morgni næsta dags, eftir morgunverð og nestistilbúning, var byrjað að ganga að bænum Stað við Staðarvatn. Átthagafélag Sléttuhrepps sér um að halda þar við húsi og kirkju. Allir í gönguhópnum tóku til við að ganga frá drenlögn við rotþró við bæinn Stað með leiðbeiningum frá Gylfa og Brodda sem daginn áður höfðu farið og mokað upp fyrir lögninni. Um að gera að nota skaftfellskar aðfarir við að moka yfir lagnirnar, vel var tekið á og ekki var það nú lengi gert. Gylfi er örugglega enn að tala um dugnaðarforkana í Skálmarhópnum.  Eftir dýrindis kaffiveitingar á Stað að hætti Jónínu þá var haldið sem leið liggur á Lækjarfellið. Útsýnið var ótrúlegt þegar upp var komið og hvar annarstaðar í heiminum er svona staður til? – jú eflaust er hann til einhverstaðar en við í Skálm erum ekki búin að finna þann stað ennþá en upplifun sem kæmist næst þessari gönguferð er um Stafafellsfjöll í Lóni. Gönguferðir um óbyggðir Íslands eru auðvitað alltaf upplifun og hvert svæði hefur sinn sjarma.  Áfram var haldið með leiðsögn Jóninu og Gylfa sem voru með í göngunni þennan dag og gengið fram á Darra sem er fjall sem skilur að Skálavík og Aðalvík. Þar má enn sjá leifar af ratsjárstöð sem Bretar reistu 1942 og notuðu í seinni heimstyrjöldinni. Enn sjást m.a. hálfhrundar byggingar, loftvarnar¬byssustæði og gamlar ryðgaðar vélar. Strengbraut var lögð neðan frá byggðinni upp á fjallsbrúnina og voru allar vistir fluttar upp með henni og þaðan lá síðan vegur að ratsjárstöðinni.  Tókum við góða stund í að skoða þessar gömlu minjar, misstum okkur í myndatökum og reyndum gera okkur í hugarlund hvernig það er hægt að senda vinnuafl til að vinna á svo afskektum stað.  Síðan var haldið heim í Bólið og fórum við þá niður brattann sem strengbrautin hafði verið þar sem sumar undirstöður standa enn.   
Enn einn frábær dagurinn á enda með tilheyrandi matarnæringu frá matarnefndinni og tilhlökkun til síðasta göngudagsins farin að kitla okkur.
Dagur 4
Síðasti göngudagurinn rann upp og eftir morgunmatinn og annað morgunstúss var pakkað saman, gengið frá og skúrað út í Hjálmfríðarbóli. Farangur var gerður klár til að fara með niður í fjöru fyrir bátinn frá Vesturferðum sem síðan átti að ná í okkur eftir gönguna yfir á Hesteyri seinna um daginn. Gestgjafarnir okkar Gylfi og Jónína voru kysst í bak og fyrir með þökkum fyrir samveruna. Síðan var haldið af stað síðasta göngudaginn. Gengið var sem leið liggur inn að Stað og áfram inn Fannadal og dregur hann nafn sitt af því að þar er yfirleitt snjór allt árið.  Þegar upp á heiðina var komið er fallegt útsýni yfir Djúp og að Sæbóli.  Í þessu dýrðarinnar veðri var auðvitað stoppað og þess notið að vera til, blaðrað um allt og ekkert því við höfðum góðan tíma til að ganga að Hesteyri. Áfram var haldið eftir greiðfærum göngustíg að Sléttuá sem við óðum yfir á tánum, sumir stikluðu yfir á steinum til að sýna færni sína sem reyndar tókst misvel, en það var gott að kæla tærnar í ánni. Enn og aftur er hægt að tala um útsýnið sem sveik ekki nokkurn göngumann og sást vel inn alla firði þar sem við stoppuðum efst á hæðum á gönguleiðinni. Sjá litlu þorpin eða bæjarþyrpingarnar sem eru svo að segja í hverri vík falin milli hárra fjalla og hugsa sér að það hafi verið hægt að búa á slíkum bæjarstæðum þar sem samgöngur voru aðallega sjóleiðis. Þrátt fyrir að leiðin milli Sæbóls og Hesteyrar sé ekki löng þá var drjúgur síðasti spölurinn niður Dalabrekku, um Hesteyrareyrar og að ganga fjöruna heim að Hesteyri. Hesteyrarþorp fór í eyði um 1952 og eins og á Sæbóli og Látrum þá eru afkomendur þeirra sem bjuggu á Hesteyri einnig að halda við húsum og öðrum mannvikjum til sumarnota. Í Læknishúsinu er nú rekin ferðaþjónusta á sumrin og einnig er boðið upp á svefnpokagistingu og kaffiveitingar og pönnukökur fyrir göngufólk sem í auknum mæli er farið að notfæra sér að ganga gönguleiðirnar á milli bæjarstaða í friðlandinu á Hornströndum að Hesteyri.   Það var því ljúft að setjast niður við Læknishúsið með heitt kaffi og gæða sér á nýbökuðum pönnukökum.........en bíðum við, allt í einu stóð sjálfur skipstjórinn á bátnum hjá Vesturferðum með hendur á mjöðmum fyrir framan okkur og sagði að við yrðum að koma núna eða fara með næstu ferð sem var miklu seinna um kvöldið. Eftir nokkra rekistefnu ruku allir til og hlupu niður í fjöru með hálftuggnar pönnukökurnar í munninum til að missa ekki af bátsferðinni til Bolungarvíkur. Það hafði nú verið meiningin að skoða sig betur um á Hesteyri en við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri þá bara tilefni til að koma aftur seinna í göngu á þetta stórbrotna svæði Íslands. Þegar til Bolungarvíkur var komið skiptist hópurinn og gisti ekki allur á sama stað því það var ein íbúð í Systrablokkinni laus þennan dag og svo einnig gisting í Gili sem er gistiaðstaða sem Soffía Vagnsdóttir rekur einnig. Síðan fóru flestir í sund og voru í leti í heitu pottunum í afslöppun og kláruðu að tyggja pönnukökurnar. – nei bara grín. Nokkrar kerlingar í gönguhópnum leituðu uppi gamlan bekkjarbróður sinn og skröfuðu við hann í smá tíma. Síðan gerði fólk sig klárt til að fara og borða saman í Tjöru¬húsinu á Ísafirði. Tjöruhúsið bauð upp á fiskihlaðborð og mælum við með að allir sem eiga leið um Ísafjörð sleppi því ekki að borða á þessum stað, enginn verður svikinn af fiskihlaðborðinu. Þegar göngufólk var búið að raða í sig allkonar fiski-lostæti var haldið aftur til Bolungarvíkur. Soffia Vagns¬dóttir og maður hennar komu í heimsókn til að heyra um gönguna okkar og hvort hún gæti gert eitthvað frekar fyrir okkur. Soffía og fjöldskylda fær frábærar þakkir fyrir góðar móttökur og það er alveg á hreinu að við göngufélagarnir berum henni og gistiaðstöðunni gott orð. Síðan var slegið upp gleðskap fram á nótt, ekki verður farið frekari orðum um það en nóg var af gríni og gleði. Daginn eftir héldu menn heim á leið, sælir eftir ógleymanlega ferð á Vestfirði og um friðlandið í Aðalvík.
Mínir bíl-ferðafélagar Kjartan, Helga og Ólöf fórum „hina leiðina“ til baka, tveir bílar í samfloti, veðrið var auðvitað ennþá það besta í heimi þennan dag sem alla hina í ferðinni. Því ekki að skoða meira fyrst við vorum þarna á ferð, þó það yrði mest svona í gegnum bílrúðurnar.  Það kom á daginn að það er nóg eftir af landinu til að skoða og ganga, þegar við brunuðum um háar heiðar og niður í firði. Keyrðum gegnum Þingeyri í skoðunarferð. Fengum okkur kaffi og pönnukökur á Hrafnseyri og skoðuðum sýninguna um ævi og störf Jóns Sigurðssonar og gömlu heyvinnslu og jarðvegstækin sem voru staðsett við gamla burstabæinn. Einnig stoppuðum við og skoðuðum fossinn Dynjanda sem fellur niður 100 merta háa bjargbrún og liðast niður eins og fallegur kjóll (guð hvað ég er skáldleg) , fossarnir í Dynjanda eru 6 talsins,  ótrúlega fallegur staður.  Keyrðum sem leið lá að Bíldudal og áfram alveg inn í sjálfan Selárdal og komust heim að bænum Uppsölum sem lét lítið yfir sér í friðsælu umhverfi, en ógleymanlegt að hafa komið alla leið heim að bæjardyrum á þessum margumtalaða stað.  Ekki var heldur hjá því komist að skoða kirkju, hús og höggmyndir Samúels Jónssonar af dýrum og mönnum sem hinn sjálfsmenntaði listamaður hafði gert og eru líka staðsettar í Selárdal. Keyrðum inn á Patreksfjörð og tókum bíltúr um bæinn til að skoða húsin og mannlífið. Það næsta sem vakti athygli mína voru bóndabýlin á Barðaströndinni því sum býlin voru alveg ótrúlega nálægt sjónum.  Skyldi fólkið á þessum bæjum geta sullað í sjávarmálinu við það eitt að reka tærnar úr rúmunum sínum.....já húsin voru svo nálægt sjónum að mér fannst  . Mátti til með að nefna örfáa staði sem við skoðuðum á leið okkar til Reykjavíkur en ekki var hægt að stoppa og skoða nærri allt sem vakti áhuga okkar.  ......ó gleymdi að nefna það að Kjartan þurfti að spila á öll þau kirkjuorgel sem hann fann í þeim kirkjum sem við skoðuðum og ég þorði ekki að hefja upp neina söngtóna af hræðslu við að reka í burtu góðu kirkjuandana.  Það er sagt að hestar beri húsbændur sína heim í hvaða veðri sem er og sama á hverju sem dynur. Má segja að bíllinn hans Kjartans sé góður hestur því hann gafst ekki upp á allri þessari leið um Suðurfirði þrátt fyrir smávægilega bilun og bar ferðafélagana til síns heima rétt áður en hann sagði „hingað og ekki lengra“  en þá var hann kominn með eiganda sinn eiginlega heim að dyrum.  Góður bíll Benz mæli með honum.
Kæru göngufélagar takk fyrir frábæra gönguferð í Aðalvík sem er eins og hinar ferðirnar alveg ógleymanlegar og martarnefnd takk fyrir frábæra matarumsjón. Innilegar þakkir enn og aftur til Jónínu og Gylfa fyrir móttökur, gestrisni og samveru í Hjálmfríðarbóli.  Ekki er alveg komið á hreint hvar verður skálmað núna í sumar en það kemur bráðlega í ljós.  
 
Með göngukveðjum, Guðrún Arnarsdóttir
Söngfélag Skaftfellinga mun hefja söngstarfið þriðjudagskvöldið 14. september kl. 20:00 í Skaftfellingabúð, Laugavegi 178, 4. hæð. Æfingar verða á þriðjudagskvöldum í vetur. Stjórnandi er Friðrik Vignir Stefánsson.

Nýjir félagar eru velkomnir í allar raddir. Opið hús er á æfingum á þriðjudagskvöldum og er söngfólk hvatt til að koma í heimsókn, fá sér kaffisopa og kynna sér starfsemi Söngfélagsins. Nýir félagar greiða ekki félagsgjald fyrsta misserið.

Söngfélag Skaftfellinga er blandaður fjórradda kór og eru söngfélagar ættaðir víðsvegar af landinu. Fjöldi söngfélaga er u.þ.b. 40. Nú er tækifæri fyrir áhugasama að stemma rödd við lag í góðum félagsskap á komandi vetri. 

Upplýsingar gefur Stjórn Söngfélags Skaftfellinga

Guðlaugur Jón Ólafsson s: 861 9615
Kolbrún Einarsdóttir s: 618 8761/824 5521
Steinunn Helga Lárusdóttir s: 690 3449
Sveinn Hjörtur Hjartarson s: 824 2309
Unnur S. Alfreðsdóttir s: 848 1533
img_6878b.jpg
 
Á uppstigningardag þann 13. maí síðastliðinn hélt Söngfélag Skaftfellinga tónleika á Kirkjubæjarklaustri ásamt sænskum kór, Östergök frá Lundi í Svíþjóð.  Að venju voru dvalarheimilin Klausturhólar á Kirkjubæjarklaustri og Hjallatún í Vík í Mýrdal heimsótt í þessari austurferð Söngfélags Skaftfellinga og  sungin nokkur lög fyrir heimilisfólkið. 
Þessi austurferð kóranna verður ógleymanleg öllum kórfélögum sem í ferðina fóru. Tilkomumikið gos í Eyjafjallajökli sást vel strax austur á Kambabrún. Veðrið skartaði sínu fegursta, heiðskírt og gott útsýni. Stoppað var m.a. fyrir framan stórbýlið Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum en þaðan sást vel til gossins í jöklinum. Keyrt var í gegnum öskufall um tíma og á köflum var töluverð aska á þjóðveginum. Þessar hrikalegu aðstæður höfðu mikil áhrif á Svíana og létu  engan ósnortinn sem upplifði þetta sjónarspil náttúrunnar.
Á uppstigninardaginn var farið snemma austur í Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Enn var tilkomumikil íslensk náttúra í aðalhlutverki og óhætt er að segja að hún hafi skartað sínu stórbrotnasta og ægifegursta. Nægir í því sambandi að nefna Lómagnúp, Eldhraunið mikla, Skaftafell, Hvannadalshnúk og síðast en ekki síst Jökulsárlónið sjálft. Þeir sem voru með Svíunum í rútu heyrðu sem eitt andvarp allra þrjátíu gestanna þegar lónið birtist sjónum. Eftir að áð hafði verið við Jökulsárlónið var haldið aftur á Krikjubjærarklaustur þar sem sameiginlegir tónleikar kóranna hófust klukkan fjögur. 
Sænski kórinn Östergök söng ýmis lög bæði á sænsku og ensku sem tengdust ákveðnum söguþráði í kringum lífshlaup fólks allt frá því það fer að heiman, hefur búskap og tekst á við ýmis veraldleg dægurmál tengd sambúð, fjármálum, áhugamálum svo nokkuð sé nefnt. Samhliða söng var kórinn með leikin atriði til þess að koma túlkun sinni um þema lagavalsins á framfæri.  
Söngfélag Skaftfellinga var einnig með breitt  lagaval ásamt hefðbundnum flutningi sönglaga tengdum Skaftafellssýslum. Í lokin sungu kórarnir nokkur lög saman og var vel tekið af áheyrendum.  
Um kvöldið héldu kórarnir til sameiginlegs kvöldverðar þar sem kórfélagar borðuðu, sungu og dönsuðu fram eftir nóttu við ljúfan undirleik píanó- og harmóníkuleikara. Sænsku gestirnir buðu við þetta tækifæri félögum í Söngfélagi Skaftfellinga að koma við fyrsta  tækifæri í heimsókn til Lundar í Svíþjóð. 
Næsta dag var haldið af stað aftur til Reykjavíkur með viðkomu á dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík í Mýrdal þar sem sungin voru nokkur lög fyrir vistmenn. Að lokum var farið í heimsókn í sumarhús þeirra bræðra og kórfélaga Kjartans, Kristins og Sigurgeirs Kjartanssona frá Þórisholti, að Djúpaleiti í Reynishverfi í Mýrdal. Þar var boðið var upp á veitngar og sænsku gestirnir voru kvaddir með áheitum um endurfundi fyrr en síðar.   
Sveinn Hjörtur Hjartarson ritaði.

Heimilsfang

Starfsemi félagsins fer fram í Breiðfirðingabúð Faxafeni 14.

Póst til Skaftfellingafélagsins, Söngfélags og Kvikmyndasjóðs skal senda á:

Pósthólf 9105

129.Reykjavík

Auglýsingar

heidmork

 

songfelagid

 

skalm

 

kvikmyndaklubbur

 

ftspor fors

 dynskogar