Skaftfellingafélagið í Reykjavík

Skálmarar hafa mörg undanfarin ár skipulagt svokallað Sumarskálm þar sem oftast hefur verið gengið á heimaslóðum í Skaftafellssýslum, en einnig víða annars staðar. Nú var ákveðið að ganga nokkrar dagleiðir í nágrenni Kirkjubæjarklausturs og Lilja Magnúsdóttir sá um skipu¬lag og leiðsögn, en hún hefur undanfarin ár búið á Klaustri og einnig tekið saman rit með gönguleiðum þar í kring. Fyrir valinu urðu þrjár skemmtilegar gönguleiðir og var ágætis veður alla dagana. Fyrsta daginn var gengið frá hlaðinu á Hunkubökkum upp á Hunkubakkaheiðina og síðan eftir stikaðri leið í átt að Klaustri, með góðu útsýni yfir Hólm, Eldmessutanga, Systra¬stapa og allt Eldhraunið. Þvínæst var gengið inn Klausturheiðina að fallegum fossum og flúð¬um í ánni Stjórn og inn að eyðibýlum á heiðinni, en þar var búið langt fram á síðustu öld. Komið var niður hjá Kleifum, gengið að Stjórnarfossi, en 14 km dagsgöngu lauk við Systrafoss.

Á öðrum degi var ekið inn á veginn í átt að Laka og bílum lagt rétt fyrir innan Rauðhól við gamlan línu-veg. Gengið var á Rauðhól sem varð til í sprengi-gosi. Þaðan lá leiðin að eyðibýlinu Hervar¬arstöð¬um sem var eitt heiðarbýlanna og fór í eyði 1916, en rústir bæjarins sjást mjög greinilega. Það er sér¬stakt að ímynda sér að þarna hafi verið byggð fyrir tæpri öld. Frá eyði¬byggðum í heiðinni var gengið með Holtsánni niður í Holtsdal þar sem áin var all¬oft vaðin. Í Holtsdal er skógrækt og afar friðsælt. Gengið fram hjá tveimur sumar¬bústöðum, en 18 km göngu um heiðarlöndin lauk á hlaðinu í Holti.

Laugardaginn 20. júní var ekið út Eldhraunið að bænum Botnum í Meðallandi þaðan sem lagt var upp síðasta göngudaginn. Gönguleiðin liggur meðfram Eldhrauninu eftir vegaslóðum og fram hjá óteljandi uppsprettulindum sem streyma undan hrauninu og renna þaðan út í Eldvatnið. Það er tilkomumikið að kynnast Eldhrauninu og Eldvatninu á þessari 15 km göngu og skynja umfang þessa gríðarmikla hrauns. Áhugavert er að sjá hversu gróið hraunið er á þessum slóðum og fjölbreytni flóru og fuglalífs í návist þess og uppsprettanna. Þennan dag var kjörið að rifja upp sögu Skaftáreldanna 1783 og hversu gríðarleg áhrif eldarnir höfðu á náttúrufar og byggð á svæðinu. Einnig áhrif Móðuharðindanna á íslenskt samfélag og nágrannalöndin, en víða í Evrópu varð uppskerubrestur því þar kólnaði í veðri vegna Skaftáreldanna.

Steinunn, Sveinn, Jóna Lísa, Elín, Lauga og Guðni þakka Lilju einstaklega góða og fræðandi daga.

Skalm 2015 01a Skalm 2015 02a  Skalm 2015 03a

Skálmað er miðvikudaga kl. 19:30 frá Lækjarási og laugardaga kl. 11:00 í Heiðmörk.

th walking

Dagana 18.-20. júní 2010 stendur fyrir dyrum árleg sumarganga Skálmar.
Er þetta níunda sumarið sem haldið er á vit ævintýranna og hafa stífar vetrar- og voræfingar skilað flestum sprækum og sprellfjörugum út í sumarið. Að þessu sinni verður gengið um Út-Síðu og hafst við á sveitarsetrinu Skál. Bærinn í Skál stóð fyrir Skaftárelda niðri á sléttlendinu, en hraunflóðið brenndi hann upp ásamt kirkjunni. Þar var kirkja frá fornu fari og helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Höfðingjasetur var í Skál til forna og stórbýli.
Fyrri daginn verður gengið frá Skaftárdal að Skál og þann seinni verður gengið upp Skálarheiðina, inn að Hervaðarstöðum, Helgadal og Holtsdal. Gert er ráð fyrir um 8 tíma göngu hvorn dag. Að venju er mjög góð þátttaka í sumargönguna. Áhugasamir geta þó enn slegist í hópinn og er bent á að leita sér nánari upplýsinga hjá  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.r.
Fararstjóri er Eiríkur Jónsson á Skaftárdal. 

Miðvikudaginn 19. maí stóð Skaftfellingafélagið í Reykjavík fyrir göngu um miðbæinn með það að markmiði að skoða hús sem Guðjón Samúelsson fyrrverandi húsameistari ríkisins hafði teiknað. Safnast var saman á Skólavörðuholti við styttu Leifs Eiríkssonar og varð þá Hallgrímskirkja fyrst fyrir augum. Leiðsögumaður var Pétur Hrafn Ármannsson arkitekt. Frá Hallgrímskirkju var gengið niður að Skólavörðustíg 35, húsi föður hans, Samúels Jónssonar, þar sem Guðjón bjó síðan alla ævi. Þaðan var horft yfir á næsta horn að húsi sem Guðjón teiknaði fyrir Helga Bergs og handan Týsgötunnar er annað hús sem Guðjón teiknaði. Þá var staðnæmst við Skólavörðustíg 25 sem hann teiknaði fyrir Andrés klæðskera. Þá var staðnæmst neðst á Skólavörðustígnum og horft upp eftir götunni og komu fram ýmsir spádómar um hvaða hugmyndir lægju að baki hönnunar Hallgrímskirkju. Þá var horft yfir Laugaveginn að húsi nr 3, sem hann teiknaði einnig fyrir Andrés klæðskera, en þar var til langs tíma klæðskeraverkstæði og fataverslun Andrésar. Því næst var gengið í átt að Þjóðleikhúsinu og byggingu þess gerð góð skil. Þá var Arnarhváll og gamla hús Hæstaréttar skoðuð og rædd. Við Hverfisgötu á móti safnahúsinu er fyrsta húsið sem Guðjón teiknaði, og er málað áberandi svörtum og rauðum litum. Því næst var gengið niður í kvosina þar sem Landsbankinn, Reykjavíkurapótek, Hótel Borg og Landssímahúsið voru skoðuð og rædd.

Þetta var bráðskemmtileg og fróðleg ganga. Þátttakendur í göngunni voru 27 að Pétri meðtöldum.

Dagbók Guðrúnar Arnarsdóttur
Gönguferð í Skotlandi – West Highland Way – dagana 5.-12. júní 2008 
skotganga_og_wiskbelti_2008_058skotganga_og_wiskbelti_2008_249 skotganga_og_wiskbelti_2008_026 skotganga_og_wiskbelti_2008_158

 

 

 

Fyrir um tveimur árum fréttum við Skálmarar af gönguferðum um hálönd Skotlands „West Highland Way“ sem vakti áhuga okkar.  Höfðum samband við Ingu Geirsdóttur sem rekur ferðaþjónustu í Skotlandi og sérhæfir sig í gönguleiðsögn um skosku hálöndin.  Um var að ræða að ganga í fjóra daga eða sjö, tekin var ákvörðun um að ganga fjóra daga sem er rúmlega helmingur leiðarinnar allrar. Ekki varð aftur snúið og tók við undirbúningur fyrir Skotlandsferð.  Inga sendi upplýsingar um allt sem til þurfti. Og þegar á leið höfðu tólf Skálmarar ákveðið að fara utan vorið 2008. 

Nokkrar myndir úr ferðinni eru komnar inn á myndasafnið.

5. júní – fimmtudagur
Flug með Icelandair brottför kl. 17.30 – lending í Glasgow 20.35
Hótel Premier Travel Inn Bearsden.
Nú var komið að því, tólf manna hópur Skálmara tíndist inn í Leifsstöð um það bil tveimur tímum fyrir brottför, bókaði sig inn og litaðist um í flugstöðinni fullir tilhlökkunar. Farið var úr rigningunni í Reykjavík yfir í regnið í Glasgow. Við sem höfðum ákveðið að skilja regnið eftir heima á Íslandi, nema hvað að þessari rigningu fylgdu miklar þrumur og eldingar. Fararstjórarnir Inga og Snorri tóku á móti hópnum og passaði upp á að allur gönguhópurinn samtals tuttugu manns komst á rétta hótelið, tólf Skálmarar, tvö frá Vopnafirði, tvö frá Selfossi, tvær frá Grindavík og tvö frá Búðardal/ Borgarfirði. Fyrsti gististaður var á hóteli sem heitir Premier Inn og Skálmarar með einhverja færni í ensku vissu auðvitað að íslenska þýðingin á þessu hótelnafni var, „bjór-inn”. Allir voru ánægðir með herbergin sem var raðað niður á mannskapinn, 2-3 í herbergi, sumir vildu vera saman aðrir urðu að vera saman og enn aðrir voru settir saman, restin hélt sér saman. Einhverjar pælingar komu þó upp, þar sem einn göngugarpurinn hafði einn afnot af þremur uppábúnum rúmum í herbergi sínu, hvernig ætti að nota öll rúmin og hvort mætti selja inn aðgang eða sofa í þeim öllum, eða vakna á 3 tíma fresti og skipta um.
Svefnaðstaða var alger lúxus til dæmis samanborið við „Skælingakofann“, „kamrana“ og þess háttar menningarhús á íslenskum öræfum. Ferðin lagðist vel í alla og gaman var að kynnast öðru göngufólki sem var með í ferðinni.


6. júní – föstudagur
Skoðunarferð um sveitir Skotlands.
Eftir morgunverð þennan fyrsta dag var farið í rútuferð um sveitir Skotlands. Ekið var til Stirling kastala sem hefur skipað stóran sess í sögu Skotlands og þar bjó William Wallace sem myndin Braveheart er um og baráttu hans og annarra Skota við Englendinga.
Þaðan var ekið í fallegan smábæ Callander í Trossach héraði til að skoða kvikmyndastjörnuna og hálandanautið Hamish og áttu sumir von á að sjá myndarlegan leikara taka á móti hópnum með kaffi¬veitingum og meðlæti - en viti menn það sem mætti okkur var mjög síðhært og stórhyrnt naut, ekki fallegt. Ég veit ekki hver hefur verið svo frægur að sjá loðinn þennan í kvikmynd!  Eftir hádegisstopp í Callander var frjáls tími í Glasgow, sumir fóru á hótelið og skoðuðu nágrenni þess en aðrir fóru í miðbæinn og reyndu að halda aftur af sér í föstu og fljótandi formi sem og búðarneyslu.
Um kvöldið var móttaka/kvöldverður á heimili fararstjóra fyrir allan hópinn og farið yfir dagskrá næstu daga. Inga fararstjóri seldi okkur síðan gönguboli og áburð til varnar mýflugum.
Þegar frábærum kvöldverði var lokið og dagskrá næstu daga orðin nokkuð ljós var aftur haldið til hótelsins. Þrjár kerlingar ákváðu að labba á hótelið þar sem þær töldu sig hafa tekið vel eftir og vera afburða ratvísar og rýmisgreindar. Þetta heitir að vera góður smali í sveit þ.e. fylgja eftir rollusporum og rata aftur heim. Gekk mjög vel í fyrstu en fljótlega uppgötvuðu þær að þetta var ekki stikuð leið, en aftur á móti voru margir göngustígar í allar áttir. Þá var gripið í GSM síma og kannaðar staðsetningar, það vantaði ekki hjálpsemina í félögum þeirra,  gott að vera í svona hópi. Var þeim bent á að fara eftir FLUGVÉL  sem átti að vera beint fyrir ofan hótelið okkar þ.e. um leið og talað var í símann. Arkað var af stað en flugvélar eru fljótar í förum og þessi dvaldi ekki nógu lengi yfir hótelinu, nú litu kerlingar hvor á aðra – áttu þær að elta þessa flugvél á flugvöllinn í Glasgow? Indæll bensínafgreiðslumaður teiknaði upp leiðina fyrir þær, teikning á svo litlu blaði getur verið villandi, spurning hvernig blaðið átti að snúa.
Í því hverfi sem þær voru nú að ramba um hittu þær góða nágrannakonu og fóru að spjalla við hana og fá betri leiðbeiningar. Fyrr en varði var þessi góða kona búin að keyra þær á hótelið.  Þær eru nágrannakonunni enn þakklátar.


7. júní – laugardagur
Lagt af stað í gönguna frá Milgavie til Drymen sem er 800 manna bær
- 20 km ganga (hækkun 200 metrar)
Þá rann fyrsti göngudagur upp og tilhlökkun mikil í hópnum að hefja skálmið. Allir smurðu og spreyjuðu flugnaeitri á sig, líka á bakpoka og skó til að vera við öllu búin. Lagt var upp frá steinsúlu með merki hálandagöngunnar í Milngavie. Gengið var um vel gróið land, skóga, inn fallega dali meðfram og um lönd bænda. Á gamalli sveitakrá sem áður hafði verið lestarstöð (Beech Tree Inn) var snæddur hádegisverður sem Inga leiðsögukona hafði séð um að útbúa fyrir okkur eins og alla hina göngudagana. Tærnar voru einnig kannaðar áður en lagt var af stað í seinni helming dagsins, plástraðar yfir og undir. Ekki urðum við vör við að gestum fækkaði á staðnum í einhverjum mæli vegna táilms sem á það til að finnast þegar vel sveittar tær eru beraðar.
Við komuna til Drymen og eftir að göngufólk hafði komið sér fyrir á gistiheimilinu (Hawthorns B&B) skunduðu nokkrir á elsta bar Skotlands og öskruðu á einhverja litla díla sem hlupu fram og aftur um sjónvarpsskjáinn. Það vildi nefnilega svo til að Evrópumót-landsliða í knattspyrnu var í gangi og miklir fótboltaáhugamenn voru í hópnum.  Nokkrir fóru í sund og gufu og enn aðrir höfðu það bara náðugt. Áttu síðan allir góða kvöldstund saman.  Þessi fyrsti göngudagur var þægilegur, sól og hiti gerði það nú samt að verkum að það varð ærinn sviti sem rann af göngufólki þrátt fyrir auðvelda dagleið.

8. júní – sunnudagur
Lagt upp frá Drymen til Rowardennan (gist á Rowardennan Youth Hostel)
- 22,5 km ganga (hækkun 360 metrar)
Lagt var upp frá Drymen í góðu veðri og aftur var úðað flugnafæluspreyi til að vígbúast varginum. Á þessari dagleið var mesta hækkunin í ferðinni þegar gengið er upp Conic Hills um 360 metra sem er akkúrat ekkert eða bara „brotabrot“ af Esjunni. Þar var stórkostlegt útsýni yfir Loch Lomond vatnið. Fararstjórinn benti okkur á litla eyju úti í vatninu og þar átti að vera nektarströnd og fór nú góð stund í að rýna þangað yfir. Þeir sem voru með gleraugu reyndu að stækka eyjuna með því að taka gleraugun af sér og snúa á alla kanta, aðrir pírðu augun – enginn sagði neitt um hver sá hvað og var þá vitnað í gamla málsháttinn; „þeir ganga um naktir sem ekkert hafa að sýna“. Spurning um gleraugnastyrk þeirra sem rifjuðu upp málsháttinn.
Þegar komið var niður af Conic Hills var hádegisnesti snætt í Balmaha sem er smáþorp við Loch Lomond.  Þaðan var gengið meðfram vatninu, eftir sandströnd, inn í skógarþykkni og áfram á áfangastað. Næsti gististaður okkar, farfuglaheimilið Rowardennan Youth Hostel leit út eins og fallegt sveitasetur en var frekar furðulega skipulagt að innan. Þar var göngu¬hópnum kynjaskipt í 4-6 manna herbergi með járnkojum sem sumir kölluðu járnbæli. Fótboltakeppni var enn í gangi og heillaði það enn part af hópnum. Sekkjapípuleikari kom um kvöldið og spilaði niður við vatnið en mýflugur gerðu honum lífið frekar leitt, einnig þá áhorfendur sem ætluðu að hlusta á hann. Þær hafa verið nokkrar flugurnar sem hann gleypti þegar hann þurfti að draga inn andann til að blása aftur í hljóðfærið. Hann á þó hrós skilið fyrir að standa þarna í svörtu flugnaskýi og spila nokkur lög sem hljómuðu reyndar öll eins.
Ekki var hægt að kanna leyndarmálið um skotapilsin því þessi sekkjapípuleikari var þýskur og ekki í pilsi - eins gott fyrir hann. Það gengur nefnilega fjöllunum hærra að þeir sem klæðast slíkum pilsum séu ekki í neinu innanundir og tilhugsunin um allar flugurnar og.....já við skulum ekki hugsa um það.
Enn kom göngudagurinn á óvart hvað varðaði landslag. Skógi vaxnar hlíðar nær alla leið, og þá vakti athygli okkar mikið skógarhögg á þessu svæði. Allir voru sáttir við daginn þrátt fyrir að einhverjar fótablöðrur hafi farið að myndast í einhverjum mæli hjá göngugörpum.


9.júní – mánudagur
Farið frá Rowardennan til Inverarnan (gist á Stagger Inn og The Drovers Inn)
- 22,5 km ganga (hækkun 240 metrar) 
Þennan morgun komu í ljós flugnabit eftir árás vargsins frá deginum áður og auðvitað var þá um að gera að úða og smyrja á sig aftur til varnar frekari árásum. Þá kvisaðist út að flær og maurar hafi heimsótt fáa útvalda í bæli þeirra um nóttina, aðrir höfðu ekki vaknað við maura-spretthlaupið – og enn var úðað og smurt.
Enn einn daginn var lagt af stað í góðu veðri og haldið á næst síðasta áfangastaðinn, Inverarnan. Að mestu gengið innan skógar og um land Rob Roy McGregor, sem er einn frægasti útilagi og þjóðsagnapersóna Skota. Eftir snæðing og hvíld í Inversnaid leit út fyrir rigningu í fyrsta skiptið - en ekkert varð úr því.
Þá tók við nokkuð klöngur upp og niður götuskorninga þegar áfram var haldið meðfram Loch Lomond. Var okkur bent á að villtar geitur gætu sést á þessari leið og væru þær svartar. Við urðum ekki svo heppin að sjá þær, kannski urðu þær varar við okkur því þessi frábæri gönguhópur gekk ekki um þegjandi. Hins vegar fannst megn geitalykt vel á afmörkuðu svæði.
Alltaf er eitthvað sem kemur á óvart í ferðum sem þessum og það sem hefur vakið athygli eru gamlir hlaðnir garðar og hlaðin hús sem einhvertíma hefur verið búið í og fá að standa og vera óáreitt. Þau koma allt í einu í ljós inn í skóginum sem skapar ákveðna umgjörð um þau.
Þegar komið var á áfangastað Inverarnan (Stagger Inn) þurfti hópurinn enn að skiptast niður þar sem gistipláss voru ekki fullkláruð og voru því náttstaðir í um 10 mínútna gönguleið hvor frá öðrum (The Drovers Inn)
http://www.thedroversinn.co.uk/
Allir áttu góða kvöldstund og voru auðvitað ánægðir með gönguna þennan dag sem og aðra daga fram til þessa. Dagleiðin var samt líklegast sú erfiðasta, en engu að síður var hún skemmtileg.

 

10. júní – þriðjudagur
Síðasta gönguleiðin frá Inverarnan til Tyndrum  (gist á Lodge Hotel)
- 21 km ganga ( hækkun 240 metrar)
Nú var síðasti göngudagurinn runninn upp og hófst 21 km ganga til Tyndrum og enn mætti okkur ótrúlega vel gróið land, gengið eftir göngustígum um fjallshlíðar og inn í skóga með margra metra háum trjám. Í þetta skiptið eins og hina dagana var verðið alveg frábært og sást vel um.  Á um það bil miðri leið var nestið borðað úti í jaðri skógar og enn var nestið hennar Ingu á borðstólum sem hún hafði útbúið fyrir hópinn. Nú varð að bæta á sig flugnasmyrsli því flugan var í árásarhug meðan við sátum og átum og var vel úðað áður en lagt var í seinni hlutann. 
Það er alveg ótrúlegt að bændur hafi á sínum tíma gefið leyfi fyrir allskonar gönguhópa hvaðanæva úr heiminum að koma blaðskellandi um landið þeirra og jafnvel ganga yfir hlaðið eins og á þessum degi þegar við stoppuðum á bóndabænum Auchtertyre Farm.  Þar hafði verið útbúin salernisaðstaða og sturtur, einnig lítil búð í burstalalöguðum stíl til að selja minjagripi, kaffi og þessháttar. Þarna nutum við þess að taka góða göngupásu og drukkum kaffi, höfðum það huggulegt svona fyrir síðasta spölinn á gönguleiðinni, blaðrandi í hið endalausa á meðan bændurnir voru í fjárhúsinu við hliðina á okkur við sitt daglega stúss.   Eftir stoppið á bóndabænum héldu okkur engin bönd og nú var heldur betur skálmað til Tyndrum á Tyndrum Lodge Hotel. Það var ánægður gönguhópur sem kom sér fyrir á hótelinu eftir daginn. Nú voru göngublöðrurnar heldur betur kannaðar.
Um kvöldið héldu áhugamenn fótboltans uppteknum hætti og vökvabirgðir á barnum voru kannaðar, ALLT viskí smakkað úr hillum barsins, en ekki veit ég hvort barþjóninn var beðinn að athuga kjallarann!  Tveir alveg ótrúlegir „trúbadorar“ spiluðu og útdeildu hringlum til gesta staðarins til að taka þátt í undirspilinu og söngnum.  Það var dansað og sungið, frábært kvöld í gönguferðalok.


11. júní – miðvikudagur
Keyrt í rútu frá Tyndrum til Glasgow og aftur gist á fyrsta hótelinu Premier Travel Inn
Eftir morgunverð var keyrt í rútu til Glasgow og sást þá svo að segja öll leiðin sem gengin hafði verið. Hópurinn var ánægður með að hafa tekið ákvörðun um að fara í göngu um hálönd Skotlands og er auðvitað stefnt að klára hana, því ekki var gengin nema rétt rúmlega hálf leiðin West Highland Way.
Við skráðum okkur aftur inn á Premier Travel Inn (ennþá „bjór-inn“) um hádegisbil  á sama góða hótelið og við gistum á fyrst. Nú var frjáls tími og  þrátt fyrir að formlegri göngu væri nú lokið gat gönguhópurinn ekki hætt og ákváðu flestir að fara með lest til Edinborgar og skoða Edinborgarkastala, rápa um verslunargötur, skoða söfn eða horfa á fótbolta. Uppáklæddir sekkjapípuleikarar einkenndu götulífið og áttu sinn þátt í að skapa ákveðna stemningu. Innan um svo marga áhorfendur var enn ekki lagt í að kanna leyndarmálið um skotapilsin og verður því að vera ráðgáta áfram. Komu upp nokkrar hugmyndir um hvernig ætti að bera sig að því.


12. júní – fimmtudagur
Skoðunarferð til Dumgoyne Hill þar sem framleitt er single malt viskíið Glengoyne. Heimferð.
Nú var heimferðardagurinn runninn upp og ferðin að taka enda. Flugið ekki fyrr en um kvöldið og raunverulega átti ekkert að vera planað þennan dag. Það má segja að eftir alla viskísmökkunina í Tyndrum hafi orðið úr skoðunarferð í viskíframleiðslu og um morguninn var farið til Dumgoyne Hill sem framleiðir single malt viskítegundina Glengoyne. Dumgoyne Hill hefur haft leyfi fyrir framleiðslu á Glengoyne single malt viskíi frá árinu 1833. Vökul augu og eyru meðtóku meira en allt sem sagt var og skoðað á þessum stað, engar uppskriftir voru þó gefnar á framleiðslunni. Ekki fara neinar sögur af „heimabruggi“ hér á landi á viskíi þessu eftir ferðalagið. Það er kannski ekki liðinn nógu langur tími. Heimferðartíminn nálgaðist og fór hópurinn ásamt Ingu og Snorra að stefna á flugvöllinn.

Í lokainntékkun í flugvélina „pípti“ nú öryggishliðið á nokkra saklausa göngumenn, ekki að spyrja að þessu sveitaliði sem heldur að það sé á leiðinni upp í heyvagn. Úr handfarangri voru dregnir upp göngustafir sem ekki var æskilegt að hafa meðferðis í vélina, ekki þá heldur sólarkrem því ekki er sól í flugvélum og síðast en ekki síst lófastór „grjóthnullungur“ örugglega 2 kg og ég vildi óska þess að ég hefði verið með myndavélina tilbúna til að taka mynd af undrunarsvipnum á öryggisverðinum þegar hann dró hnullung þennan upp úr töskunni.
En ótrúlegt, allt tekur þetta enda og Sumarganga Skálmar 2008 er ógleymanleg. Vonandi hafa 12 sprettglaðir Skálmarar ekki gert útaf við fararstjóra eða aðra sem voru í þessum frábæra 20 manna hópi, allavega var ekki það að sjá eða heyra og gaman að fá að kynnast því göngufólki. Við þökkum Ingu og Snorra fyrir frábæra göngudaga, góða kynningu og að gera allt til að öllum í gönguhópnum liði vel.

Hvað Skálmarar taka sér fyrir hendur í næsta skálmi eða hvaða landshorn verður fótum troðið er ekki komið á hreint, en við getum lofað ógleymanlegri gönguferð.

Guðrún Arnarsdóttir

Ps.
Það eru nokkrar ( lika ég) sem eru ennþá með hugann við skotapilsin og leyndarmálið um þau.
Smá erindi var sett  saman og hef ég ekki heiti yfir bragfræði sem hér fer á eftir en er samt sett svona upp.  Það er vissara að lyfta pilsfaldinum upp réttu meginn!

Skota - bæn

Margur hefur misst sig í fári og löngun
...yfir mannskap sem gengur í pilsi
Fiðringur hríslast, fögnuður mikill
.... faldurinn lyftist.... ég ærist...
ef gæti ég “skotann” úr fötunum grátið
...get ekki beðið...
Stari með stjörnur í augunum
stjörf.......uppí rassgatið áonum
..ég snéri honum við...alveg útá hlið...
en myrkur huldi mína sýn
..góði guð...leymmér sjá....bara smá
hvað þú hefur skapað hann með
...geeeeeerðu það......

Ég hef ekki verið bænheyrð ennþá !
G.A.


Sjá einnig myndir (m.a. af okkur) og lýsingar á ýmsum gönguferðum Ingu og Snorra:
http://www.skotganga.co.uk

Gönguferðin í Skaftafellsfjöll tókst með eindæmum vel.  Um 20 manns lögðu upp frá Skaftafellsbrekkum um 09:00 á laugardagsmorgun, 15. ágúst og fyrsti áfangi var inn í Bæjarstaðaskóg.  Síðan var haldið upp Bláhnjúkadal og upp á Eggjarnar þar sem sést yfir í Norðurdal en þar eru jökullón og sést yfir Skeiðarárjökul og yfir í Grænalón.  Síðan var gengið austur á Kjósareggjar en þar sést vel yfir Kjósina, sem er útsýni sem er ekki hægt að lýsa.  Eftir að fólk hafði dásamað þá sjón var gegnið til baka og fram á Blátind en þaðan sést yfir allan vestri hluta Skaftafellsfjallana svo sem Bláhnjúkadal, Langagil, Litla-Bláhnjúk, Jökulfell, Færnestinda, Færneseggjar, Skeiðarárjökul og fleira.  Hluti Litla-Hofs göngugarpana gekk síðan austur Eggjarnar og niður Austurdal með Réttargili en restin af hópnum gekk niður Bláhnjúkadal sömu leið og þau gengu upp.  Göngufólkið komið í bílana um kl. 19:00 eftir nokkuð stranga en skemmtilega (25 – 30 km) göngu.  Veðrið var einsog best verður á kosið.
Hér er nokkrar myndir en fleiri myndir verða settar inn á myndasafnið síðar en örlítil tæknileg vandamál eru við það eins og stendur. 
img_3877a.jpg
 img_3720a.jpgimg_3888a.jpg

img_3958a.jpgimg_3961a.jpgimg_1172a.jpg

img_1219a.jpgimg_1247a.jpg

Heimilsfang

Starfsemi félagsins fer fram í Breiðfirðingabúð Faxafeni 14.

Póst til Skaftfellingafélagsins, Söngfélags og Kvikmyndasjóðs skal senda á:

Pósthólf 9105

129.Reykjavík

Auglýsingar

heidmork

 

songfelagid

 

skalm

 

kvikmyndaklubbur

 

ftspor fors

 dynskogar