Myndakvöld á vegum Skaftfellingafélagsins er áformað 28. mars kl. 20:00 í Breiðfirðingabúð í Faxafeni 14, efri hæð.
Þar munu Kári Kristjánsson, starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs, og Páll Imsland jarðfræðingur sýna myndir og miðla fróðleik.
Kári sér um fyrri hálfleik og leiðir fólk úr Vonarskarði um svæðið austan Tungnaár suður í Laka, með viðkomu við Langasjó og í Eldgjá, svo þekkt kennileiti séu nefnd.
Eftir kaffihlé verður Páll Imsland með myndskreyttan fyrirlestur um þróun og aldur strandlónanna á Suðausturlandi, meðal annars Hornafjarðar.
Annar kafli dagskrár hans nefnist Land og lýður og byggist á myndasýningu af landslagi og uppákomum á Suðausturlandi.
Þriðja og síðasta atriði hans nefnist: Sauðfé ferjað úr Breiðamerkurfjalli. Það er um fimm mínútna kvikmyndabrot frá haustinu 2016.
Íslandsmeistaramót í Hornafjarðarmanna gekk vel, spilað var á 8 borðum og að lokum stóð Stefán upp sem sigurvegari og fékk fyrir það mat og menningarupplifun á Þórbergssetri, Helga vann önnur verðlaun og fékk fyrir það siglingu á Fjallsárlón og síðan tók Nökkvi þriðja sætið og með því ferð í Ingólfshöfða.
Skaftfellingamessa verður haldin í Breiðholtskirkju sunnudaginn 10. mars kl. 14.
Sr. G. Stígur Reynisson, sóknarprestur á Höfn, prédikar, sr. Sigurður Kr. Sigurðsson fyrrverandi sóknarprestur og sr. Sigurjón Árni Eyjólfsson þjóna fyrir altari. Söngfélag Skaftfellinga syngur undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar organista.
Kaffisala Söngfélagsins er eftir messu í safnaðarsal Breiðholtskirkju.
Skaftfellingafélagið óskar Skaftfellingum og öðrum velunnurum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.